Handbolti

Stefán mættur með sínar stelpur í fimmta úrslitaleikinn á sex árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stefán Arnarson, þjálfari Fram.
Stefán Arnarson, þjálfari Fram. Vísir/Valli
Stefán Arnarson og stelpurnar hans í Fram slógu út Íslands-, deildar- og bikarmeistara Gróttu í undanúrslitum deildarbikars Flugfélags Íslands í gær og mæta Val í úrslitaleiknum klukkan 18.30 í kvöld.

Framkonur eiga titil að verja því þær unnu Stjörnuna í úrslitaleik fyrir ári síðan.

Fram og Valur eru bæði neðar en liðin sem þau slógu út í gær, Grótta og ÍBV. Valskonur virðast vera komnar með tak á liði gamla fyrirliða síns Hrafnhildar Skúladóttur því Valsliðið burstaði ÍBV í deildarleik liðanna í lok október.

Lið Stefáns Arnarsonar þekkja það mjög vel að komast í úrslitaleik á milli jóla og nýárs en þau hafa verið þar fimm sinnum á síðustu sex árum.

Stefán Arnarson stýrði áður Valsliðinu sem fór í úrslitaleikinn þrjú ár í röð frá 2010 til 2012. Hann tók síðan við liði Fram sumarið 2014 og vann deildarbikarinn á fyrsta tímabili.

Valskonur unnu tvo af þremur úrslitaleikjum sínum undir stjórn Stefáns, 23-22 sigur á Fram 2010 og 30-25 sigur á Fram 2011. Valsliðið tapaði aftur á móti í úrslitaleik á móti Fram 2012.

Lið Fram og Vals þekkja það vel að spila til úrslita í deildarbikar kvenna en þetta verður fimmti úrslitaleikur félaganna í keppninni síðan að hún var fyrst spiluð á milli jóla og nýárs í desember 2007. Liðin mættust 2007, 2010, 2011, 2012 og nú 2015.

Þjálfarar með lið í úrslitaleik deildarbikars kvenna frá 2010:

5 - Stefán Arnarson (Valur 2010, 2011, 2012, Fram 2014, 2015)

2 - Einar Jónsson (Fram 2010, 2011)

1 - Alfreð Örn Finnsson (Valur 2015)

1 - Ragnar Hermannsson (Stjarnan 2014)

1 - Skúli Gunnsteinsson (Stjarnan 2013)

1 - Kári Garðarsson (Grótta 2013)

1 - Halldór Jóhann Sigfússon (Fram 2012)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×