Viðskipti innlent

Starfsmenn FME ánægðari en áður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Á ársfundi Unnur Gunnarsdóttir ræddi starfsmannamál FME á fundi stofnunarinnar.
Á ársfundi Unnur Gunnarsdóttir ræddi starfsmannamál FME á fundi stofnunarinnar. fréttablaðið/pjetur
Síðastliðin þrjú ár hefur fjöldi starfsmanna og starfsmannavelta verið nokkuð stöðug, segir í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins. Þar segir að árið 2014 hafi fjöldi greiddra stöðugilda verið 117,5 og starfsmannavelta verið tæp 8 prósent. Þetta þýðir að starfsmönnum hefur fjölgað umtalsvert frá því í aðdraganda bankahrunsins, en þeir voru 44 í árslok 2006 og 62 í árslok 2008.

„Það er velta en hún er mjög heilbrigð,“ segir Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, í samtali við Markaðinn eftir ársfund Fjármálaeftirlitsins sem fór fram á fimmtudaginn. Hún segir að það skipti miklu máli að tekist hafi að ná veltunni niður.

Aðstæður Fjármálaeftirlitsins á árunum fyrir bankahrun voru mikið gagnrýndar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í skýrslunni segir að starfsmannavelta hjá Fjármálaeftirlitinu hafi verið breytileg á tímabilinu 2000-2008. Samkvæmt skýrslunni var starfsmannavelta hjá stofnuninni að meðaltali 11% frá árinu 2000 til miðs árs 2008. Þá segir í skýrslunni að Fjármálaeftirlitið hafi búið við mikla samkeppni við fjármálamarkaðinn og fyrirtæki tengd honum sem hafi leitt til þess að töluverður fjöldi starfsmanna hafi látið af störfum. Í þeim hópi hafi verið reyndustu sérfræðingar stofnunarinnar.

Í samtali við Markaðinn segist Unnur Gunnarsdóttir skynja það nú að þegar hún talar við stjórnir hjá eftirlitsskyldum aðilum hafi þeir skilning á því að Fjármálaeftirlitið þurfi að vera með sterkt og gott starfsfólk.

Í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins segir að ný vinnustaðagreining sýni að starfsandi hjá Fjármálaeftirlitinu sé góður, eða 4,22 stig af 5 mögulegum, en jafnframt hafi ánægja og stolt starfsmanna aukist til muna.

Unnur segir að Fjármálaeftirlitið skapi tækifæri fyrir fólk sem vilji starfa í þekkingarumhverfi. „Það er mikil þjálfunarþörf og þetta eru sérhæfð störf. Þó að þetta kosti einhverja peninga, þá er það eitthvað sem við verðum að gera,“ sagði Unnur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×