Erlent

Starfsmaður flugfélags eftirlýstur

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Kim Jong-nam.
Kim Jong-nam. Nordicphotos/Getty
Lögreglan í Malasíu gaf í gær út handtökuskipun á hendur starfsmanni norðurkóreska flugfélagsins Air Koryo. Er sú skipun gefin út í tengslum við morðið á Kim Jong-nam, hálfbróður leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un.

Lögreglustjórinn Khalid Abu Bakar sagði í gær við malasíska fjölmiðla að hinn eftirlýsti héti Kim Uk-il og væri 37 ára. Er talið að hann búi yfir upplýsingum um morðið á Kim.

Kim var myrtur þann 13. febrúar síðastliðinn á flugvellinum í höfuðborg Malasíu, Kúala Lúmpúr, með hinu mjög svo eitraða VX-taugagasi.

Þá hafa Malasar óskað eftir samstarfi norðurkóreska sendiráðsins við öflun upplýsinga um staðsetningu Kim Uk-il.

Kang Chol, sendiherra Norður-Kóreu í Malasíu, hefur sakað malasísku lögregluna um samráð við Suður-Kóreu og að hún vilji koma óorði á Norður-Kóreumenn. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×