Innlent

Starfsfólki sagt upp lækki fjárframlög

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Flest skattaskjólsmál virðast fara í gegnum Lúxemborg. Skattrannsóknarstjóri gerir ráð fyrir að vinna starfshóps á vegum fjármálaráðuneytisins skili niðurstöðum varðandi kaup á leynigögnum.
Flest skattaskjólsmál virðast fara í gegnum Lúxemborg. Skattrannsóknarstjóri gerir ráð fyrir að vinna starfshóps á vegum fjármálaráðuneytisins skili niðurstöðum varðandi kaup á leynigögnum. NORDICPHOTOS/GETTY
Verði ekki breytingar á fjárheimildum til embættis skattrannsóknarstjóra á næsta ári blasir við að segja þurfi upp starfsmönnum nú í desember. Þetta segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. „Það liggur fyrir að fjárframlögin eigi að lækka um tæplega 40 milljónir króna. Mér sýnist að þá þurfi að fækka um fimm til sex starfsmenn en hér starfa alls 29. Ég er búin að fara á fund fjárlaganefndar. Málið er ekki útkljáð en mér heyrist að það eigi ekki að breyta þessu,“ greinir Bryndís frá.

Spurð hvort fækkun starfsfólks hafi áhrif á vinnslu gagna úr skattaskjólum verði tekin ákvörðun um kaup á þeim segir Bryndís að ekki sé ljóst á hvaða verkefnum fækkunin kæmi niður. „En maður hefur náttúrlega áhyggjur af því hvernig vinna á úr þeim gögnum sem við fáum.“

Skattrannsóknarstjóri sendi í haust fjármálaráðuneytinu greinargerð eftir að hafa farið yfir sýnishorn af gögnum um hundruð Íslendinga sem honum voru boðin til kaups. Sýnishornin bentu til að skattaundanskot hefðu verið stunduð.

Bryndís Kristjánsdóttir
„Ég ætla að hlutverk starfshóps sem fjármálaráðherra hefur sett á laggirnar vegna þessara mála sé tvíþætt. Annars vegar að skoða hvort lagalegar hindranir séu á kaupum á þessum gögnum og hins vegar að meta hvort veita eigi sakaruppgjöf vegna skattaundanskota,“ segir Bryndís.

Hún tekur það fram að sakaruppgjöf í nágrannalöndum og þeim löndum sem Íslendingar vilji bera sig saman við hafi skilað góðum árangri. „Menn fá upp á yfirborðið tekjur og eignir sem eru duldar gegn því að refsingar falli niður eða verði með einhverjum hætti lægri en ella. Það er hins vegar umdeilt hvort veita eigi einhverjum sakaruppgjöf sem aðrir fá ekki. Það eru ýmis sjónarmið uppi um þessi mál.“

Að sögn Bryndísar er það starfshóps fjármálaráðherra að setja reglur um þessi mál. „Það er ýmislegt sem þarf að horfa til. Þetta er yfirleitt þannig að menn hafa ákveðinn tíma til að telja fram auk þess sem engu má halda undan. Mál mega heldur ekki vera farin í gang nú þegar.“

Bryndís kveðst gera ráð fyrir að vinna starfshópsins skili niðurstöðum varðandi kaup á leynigögnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×