Skoðun

Starfsfólk og innleiðing á samfélagsábyrgð fyrirtækja

Lára Jóhannsdóttir skrifar
Það er ekki sjálfgefið að vel takist til við innleiðingu breytinga hjá fyrirtækjum. Mótþrói starfsfólks getur gert það að verkum að áætlanir renna út í sandinn, enda er ekki víst að hagsmunir og þarfir starfsfólks fari saman við fyrirætlanir stjórnenda. Aðferðir breytingastjórnunar geta stuðlað að farsælli innleiðingu breytinga, en starfsfólk þarf að skynja þörf fyrir breytingarnar. Framtíðarsýn þarf að vera skýr og stjórnendur bera ábyrgð á því að miðla sýninni. Þjálfa þarf starfsfólk, veita því umboð til athafna, skilgreina áfanga verksins, fagna áfangasigrum, mæla árangur og rétta af kúrsinn ef árangur samræmist ekki áætlunum.

Andstætt mótþróa gagnvart breytingum er móttækileiki starfsfólks fyrir breytingum. Vísbendingar eru um að fyrirtæki sem eru sönn í áherslum sínum á samfélagsábyrgð eigi auðveldara með að fá fólk með sér í breytingar en þau sem ekki sinna slíkum áherslum eða gera það með hangandi hendi. Samfélagsábyrgð felur það í sér að áhersla er á hag samfélags og umhverfis, en ekki eingöngu á hag hluthafa. Áherslur á hag breiðs hóps hagsmunaaðila ættu til lengri tíma litið að koma fyrirtækjum til góða. Ef fyrirtæki eiga að þróast í takt við kröfur samfélagsins þurfa þau á hæfu starfsfólki að halda og viðskiptavinum sem vilja kaupa af þeim vörur eða þjónustu. Þá þurfa aðrir þeir sem verða fyrir áhrifum af rekstrinum einnig að vera sáttir.

Áherslur á samfélagsábyrgð fyrirtækja geta stuðlað að starfsánægju. Starfsfólk skynjar að það vinnur hjá fyrirtæki sem hefur æðri tilgang en þann að græða meira í dag en í gær. Það fyllist stolti sem endurspeglast í störfum þess. Starfsfólkið er tilbúið að leggja aukalega á sig svo að áætlanir nái fram að ganga þar sem störf þess skipta máli fyrir samfélag og umhverfi. Eigi starfsfólk að styðja breytingar og taka þátt í innleiðingunni, skiptir máli hvers eðlis breytingarnar eru og hver nýtur ávinningsins. Samhliða ávinningi fyrirtækisins ættu hagsmunaðilar að hagnast. Starfsfólki gætu verið búnar betri vinnuaðstæður, verkefni gerð innihaldsríkari eða kjör bætt. Minnka mætti álag á umhverfi, eða leita lausna á samfélagslegum vandamálum. Fyrirtæki geta bætt hag sinn á sama hátt og þau bæta hag annarra, því velgengni fyrirtækja helst í hendur við velgengni samfélagsins.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×