Innlent

Starfa ekki á Landspítala fyrr en launin hækka

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Í dag vantar 290 hjúkrunarfræðinga í fjármögnuð stöðugildi á heilbrigðisstofnunum á landinu. En áætluð þörf er 523 hjúkrunarfræðingar. Þetta kemur fram í skýrslu sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lét gera. 

Á sama tíma starfa um þúsund hjúkrunarfræðingar á Íslandi við annað en hjúkrun.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður félags hjúkrunarfræðinga, segir að hægt væri að leysa mönnunarvandann ef ekki væri flótti úr stéttinni - sem komi til vegna launakjara og álags. Það sé einnig áhyggjuefni að fimmtán prósent nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinema hefji ekki störf við hjúkrun.

„Sem dæmi má taka að aðeins 73 prósent hjúkrunarfræðinga sem útskrifuðust fyrir fimm árum starfa við hjúkrun í dag og þetta finnst mér ógnvænlegt,” segir Guðbjörg.

Á síðustu vikum hafa hjúkrunarnemar sem útskrifast í vor komið því skýrt til skila til sinna yfirmanna á Landspítalanum að þær muni ekki sækja um starf þar nema launin hækki. Hjúkrunarfræðinemar hafa almennt mikinn áhuga á að starfa á Landspítalanum en þar er einmitt mikill skortur á hjúkrunarfræðingum. En launin þykja ekki boðleg og því komu nemarnir á framfæri á fundi með stjórnendum í gær.

„Við höfum lagst í rannsóknarvinnu og fundið út að það er sláandi munur á launum á Landspítala og Reykjavíkurborg,” segir Elín Björnsdóttir, hjúkrunarfræðinemi og Sigrún Sæmundsdóttir, samnemandi hennar bætir við að eftir eitt ár í starfi muni 75 þúsund krónum á grunnlaununum.

„Við erum að tala um að sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum ertu fimm til níu ár að vinna þig upp í byrjunarlaunin sem Reykjavíkurborg era ð bjóða okkur nýútskrifuðum. Þannig að þetta eru sláandi tölur,” segir Sigrún. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×