Enski boltinn

Stam vill grafa stríðsöxina við Sir Alex og spjalla við hann fyrir bikarleikinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jaap Stam og Sir Alex hittust síðast í góðgerðarleik á Old Trafford árið 2010.
Jaap Stam og Sir Alex hittust síðast í góðgerðarleik á Old Trafford árið 2010. vísir/getty
Jaap Stam, knattspyrnustjóri Reading, vill endilega eiga spjall við Sir Alex Ferguson, sinn gamla yfirmann, þegar Hollendingurinn mætir með sína menn í Reading á Old Trafford í 3. umferð enska bikarins í næsta mánuði.

Stam er einn besti miðvörður sem hefur spilað fyrir Manchester United en hann vann þrjá Englandsmeistaratitla á Old Trafford og var í liðinu sem vann þrennuna sögulegu árið 1999.

Hollendingurinn gerði þau mistök að pirra Sir Alex með skrifum sínum í ævisögu sinni þegar hann var leikmaður Manchester United en það varð meðal annars til þess að Skotinn lét miðvörðinn fara. Sir Alex hefur viðurkennt að það voru mistök.

„Ég hef ekkert heyrt í Sir Alex síðan ég kom aftur til Englands en það væri mjög gaman að tala við hann,“ segir Stam í viðtali við Daily Mail. Stam gerðist stjóri Reading í sumar en áður stýrði hann Zwolle og Ajax.

„Nú þegar ég er knattspyrnustjóri sjálfur rifja ég upp hvernig hann talaði við leikmannahópinn og hafði áhrif á ákveðnum stundum,“ segir Jaap Stam.

Stam er að gera fína hluti með Reading-liðið en það er í þriðja sæti ensku B-deildarinnar. „Ég naut lífsins á Old Trafford og var búinn að skrifa undir framlengingu á samingi mínum. Ég ætlaði mér aldrei að fara en það vita allir hvernig þetta endaði,“ segir Jaap Stam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×