Innlent

Stálu bensíni fyrir rúmlega fimm milljónir króna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Tveir karlmenn, annar á sextugsaldri og hinn á sjötugsaldri, voru í dag dæmdir í fangelsi fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar. Að auki var annar mannanna dæmdur fyrir peningaþvætti.

Brot mannanna áttu sér stað á níu mánaða tímabili frá júní 2013 til júlí 2014. Annar mannanna, sem hafði starfað hjá tæknideild Atlantsolíu, hafði undir höndum lykil að eldsneytisdælu félagsins í Búðakór í Kópavogi. Lykilinn notaði hann til að opna dæluna, aftengja eldsneytisteljara og greiða svo að lokum litla upphæð til félagsins. Ávinningur mannanna af brotunum nam fimm milljónum króna.

Þrír aðrir voru í upphafi ákærðir fyrir hlutdeild í brotunum en þeirra þáttur var slitinn frá málinu. Sömu sögu er einnig að segja af bótakröfu Atlantsolíu á hendur mönnunum.

Annar mannanna, sá sem hafði lykilinn undir höndum, hlaut níu mánaða dóm en þar af eru sex mánuðir skilorðsbundnir til þriggja ára. Hinn hlaut sex mánuði en fjórir mánuðir refsingarinnar falla niður að þremur árum liðnum haldi hann skilorð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×