Menning

Staldrað við í ljóðinu

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Fyrsta ljóðabók Jónu Kristjönu, Skýjafar, kemur út á morgun.
Fyrsta ljóðabók Jónu Kristjönu, Skýjafar, kemur út á morgun. Vísir/GVA
Skýjafar er fyrsta ljóðabók Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur og kemur hún út á morgun en hún er hluti af seríu Meðgönguljóða, bókaflokki Partusar sem helgaður er nýjabruminu í íslenskri ljóðlist.

Í bókinni er samansafn ljóða sem Jóna Kristjana hefur ort á síðustu tveimur til þremur árum en hún byrjaði að vinna að henni í janúar í fyrra.

„Þá safnaði ég saman því sem ég hafði verið að gera áður og bætti við nýju efni. Bókinni er ritstýrt af Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur og það var ótrúlega gott fyrirkomulag. Það myndaðist mikið traust á milli okkar, hún kenndi mér margt og þetta var lærdómsríkt ferli. Þetta er í fyrsta skipti sem ég gef út ljóðabók þannig að ég vissi ekki út í hvað ég var að fara,“ lýsir Jóna Kristjana.

Ljóðin geyma margt

Ljóðin í Skýjafari eru þrettán í heildina og segir skáldið að þegar upp er staðið myndi þau eins konar ferðalag.

„Ef ég ætti að lýsa einhverju heildarþema bókarinnar, þá er þetta ferðalag innra með mér en ég vil að hver túlki það á sinn hátt. Ég lít á þetta sem ákveðið uppgjör við tímabil í mínu lífi og þá má líta á að það hefjist á einum tímapunkti og ljúki síðan á öðrum. Það má líka segja að þetta séu brot úr lífinu sem safnast saman og þegar upp er staðið mynda þau kannski eina heild og sýna ferðalag.“

Titill bókarinnar vísar einnig til þess að sögn Jónu Kristjönu.

„Ský eru alltaf á hreyfingu fyrir ofan okkur en þau skilja líka eftir eitthvað sem er jafnvel ósýnilegt. Eins og þegar við upplifum ást eða ástar­sorg, þá skilur hún eitthvað eftir sig þó við sjáum það ekki endilega. Ljóðin hjálpa okkur að staldra við og líta til baka, þannig að þau geta geymt margt,“ segir hún íbyggin.

Innblásin af náttúrunni

Jóna Kristjana segist hafa skrifað mikið síðan hún byrjaði að lesa sem var mjög snemma.

„Ég var algjör bókaormur þegar ég var lítil og fannst gaman að ljóðum sérstaklega. Ég byrjaði að gera rím­ljóð þegar ég var barn og gat dundað mér við það heilu dagana. Þegar ég var unglingur uppgötvaði ég atóm­ljóð og fór að gera þannig ljóð. Í bókinni sem ég gef út núna eru einmitt bara atómljóð en það er það sem ég hef mest verið að fást við að undanförnu en ég skrifa annars alls konar texta.“

Innblástur að ljóðunum og textunum sækir Jóna Kristjana mikið til náttúrunnar. „Ég er mjög tengd náttúrunni en líka borginni, ég er mjög hrifin af Reykjavík og hún gefur mér mikinn innblástur. Einnig fólkið í kringum mann og allar tilfinningar sem maður upplifir, vinir og vinamissir, ást og ástarsorg.“

Langar að prófa prósa

Jóna Kristjana er í BA-námi í íslensku og ritlist sem hún stefnir á að klára og langar svo að sækja um í framhaldsnámi í ritlist.

„Ég er líka að reyna að halda áfram að skrifa fyrir sjálfa mig og mig langar að prófa að breyta um form. Í öllum ljóðunum í þessari bók einbeiti ég mér mikið að því að meitla tungumálið og tálga það þannig að það verði tært. Mig langar að sleppa fram af mér beislinu og gera meira af prósatextum og sjá til hvernig það gengur, hver veit nema það verði önnur bók úr því,“ segir Jóna Kristjana og brosir.

Útgáfu Skýjafars verður fagnað annað kvöld í Mengi klukkan átta en þar verður líka fagnað útkomu tveggja annarra ljóðabóka í seríu Meðgönguljóða, Vertu heima á þriðjudag, eftir Berg Ebba Benediktsson, og Hamingjan leit við og beit mig, eftir Elínu Eddu Þorsteinsdóttur. Það kostar tvö þúsund krónur inn en með greiddum aðgangseyri fylgir ljóðabók að eigin vali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×