Innlent

Stal bakpokanum þegar Ómar Ragnarsson leit undan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ómar Ragnarsson vonast til þess að endurheimta verðmæti sín.
Ómar Ragnarsson vonast til þess að endurheimta verðmæti sín. Vísir/Stefán
Ómar Ragnarsson varð fyrir þeirri leiðu lífsreynslu í dag að glata fartölvu með mikilvægum upplýsingum ásamt myndavél sinni, linsu og talstöð fyrir flugvélar. Svo virðist sem bakpokinn hafi verið tekinn ófrjálsri hendi í anddyri útibús Landsbankans í Austurstræti.

Þar beið Ómar eftir því að komast að hjá gjaldkera, leit augnablik af pokanum og þá var hann horfinn. Ómar greinir frá þessu á Fésbókarsíðu sinni og upplýsir að búið sé að kæra þjófnaðinn til lögreglu.

Atvikið átti sér stað um klukkan 15:35 í dag þar sem Ómar var að tala í símann í anddyrinu á meðan hann beið eftir lausum gjaldkera. Lagði hann þungan bakpokann frá sér í lokaða tröppu hægra megin við hraðbankann á meðan hann spjallaði í símann.

Bakpokanum var stolið í anddyri Landsbankans í Austurstræti.Vísir/Andri Marinó
Hrifsaði pokann og skundaði út

„Þar var fólk og öryggismyndavélar og nærstaddur öryggisvörður,“ segir Ómar. Hann lýsir því hvernig hann hafi gægst inn í bankann til að athuga númerið á skjánum til að vita hvort röðin færi að koma að honum.

„Þegar ég sneri mér aftur við trúði ég ekki mínum eigin augum. Bakpokinn var horfinn,“ segir Ómar. Hann hefur eftir vitnum á staðnum að kona hafi stigið fram, hrifsað pokann og skundað út. Vitnunum hafi fallist hendur vegna bíræfni konunnar.

Bakpoki Ómars er nokkuð stór og svartur með dökkbláu mynstri en vinstri hliðarvasinn er rifinn. Í pokanum var Svört Lenovo fartölva með mikilvægum gögnum og skjölum, Canon EOS 650 myndavél með 24-135 mm linsu, Canon linsa 24-55 mm og ICON handheld talstöð fyrir flugvélar.

Færslu Ómars má sjá hér að neðan.

Kl. 15:35 í dag var èg staddur í anddyri Landsbankans í Austurstræti, beið þar eftir að komast að hjá gjaldkera en...

Posted by Omar Ragnarsson on Friday, October 2, 2015

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×