Innlent

Stærstur hluti Íslendinga vill hafa forsetaembætti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Langflestir svarendur í könnuninni vilja hafa einhvern ábúanda á Bessastöðum.
Langflestir svarendur í könnuninni vilja hafa einhvern ábúanda á Bessastöðum. vísir/gva
„Þetta segir mér kannski bara fyrst og fremst að það er yfirgnæfandi stuðningur við það í samfélaginu að hafa forsetaembætti áfram, hvað svo sem röddum um annað líður,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði, um niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis.

Þessar niðurstöður sýna að einungis 12 prósent svarenda vilja að embætti forseta Íslands verði lagt niður, 78 prósent vilja það ekki, níu prósent eru óákveðin í afstöðu sinni en 1 prósent neitar að svara. Þegar einungis eru skoðuð svör þeirra sem afstöðu taka sést að tæp 14 prósent vilja að forsetaembættið verði lagt niður. Rúm 86 prósent vilja það ekki. Fleiri karlar en konur sem afstöðu taka vilja að embættið verði lagt niður, eða 15,6 prósent á móti 11,7 prósentum.

Grétar Þór segir þessar niðurstöður benda til þess að þjóðin vilji hafa forseta. „En svo er náttúrlega hitt að þjóðin er komin í forsetagírinn í aðdraganda kosninga. Það er ekkert útilokað að þú fengir aðeins lægri tölu ef þú værir á miðju kjörtímabili,“ segir Grétar Þór og ítrekar að fólk sé komið í ákveðinn gír.

Könnunin var gerð mánudagskvöldið 6. júní. Hringt var í 924 manns þar til náðist í 800 og var svarhlutfallið því 86,6 prósent. Spurt var: Vilt þú að embætti forseta Íslands verði lagt niður? Svarmöguleikarnir voru já og nei. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Alls tóku 89,9 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. júní 2016. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×