Lífið

Stærstu aflraunastjörnur Íslands keppa á WOW Stronger

Birgir Olgeirsson skrifar
Annie Mist, Ragnheiður Sara, Katrín Tanja og Hafþór Júlíus keppa öll á þessu móti.
Annie Mist, Ragnheiður Sara, Katrín Tanja og Hafþór Júlíus keppa öll á þessu móti. Mynd/Vísir
„Þetta verður svaðalegt partí,“ segir Evert Víglundsson Crossfit-þjálfari um um keppnina WOW Stronger þar sem besta aflraunafólk Íslands, Hafþór Júlíus Björnsson, Katrín Tanja Davíðsdóttir, Annie Mist Þórisdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, keppa í CrossFit með Strongman áherslum.

Mótið fer fram í CrossFit Reykjavík í Faxafeni 12 klukkan 14:30 á laugardag.

Æfingarnar sem keppt verður í er sambland af Strongman-keppnisgreinum, kraftlyftingum, ólympískum lyftingum og Crossfit. Er búist við snörpum æfingum og þungum lyftu sem er sagt skemmtilegt áhorfs.

Þetta verður í fyrsta skiptið sem keppni í Strongman-greinum og CrossFit er blandað saman, eða allavega svo vitað er.

Evert Víglundsson.Mynd/Vísir
Hugarfóstur Everts og Annie

Evert segir hann og Annie Mist hafa gengið með þessa hugmynd í nokkurn tíma. „Við ákváðum að skella í það. Tímasetningin hentar einstaklega vel því fram undan er þétt dagskrá hjá öllum af okkar helstu aflraunastjörnum. Þetta var því eini dagurinn sem var í boði,“ segir Evert.

Hann segist vonast til þess að þetta form á keppni verði að reglulegum viðburði og gætu Íslendingar orðið stórir á því sviði því ekki vantar afrekin á þessu sviði. Hafþór Júlíus er atvinnumaður í Strongman og sterkasti maður Íslands, Katrín Tanja er núverandi heimsmeistari í CrossFi, Annie Mist er fyrrverandi heimsmeistari í CrossFit og Ragnheiður Sara er Evrópumeistari í CrossFit og varð í 3. sæti á heimsleikunum í CrossFit.

Þá mæta 8 erlendi keppendur til leiks, þar á meðal Patrick Vellner sem varð í 3. sæti á heimsleikunum í CrossFit. Evert segir erlendu keppendurna vera úr CrossFit-heiminum en þekktir fyrir að vera „extra-sterkir“.

Mynda saman lið

Í Strongman er áherslan á gífurlegan styrk en í CrossFit er mikið lagt upp úr hraða og úthaldi. Því gætu einhverjir spurt sig hvernig Hafþór Júlíus á að geta keppt við Katrínu Tönju í hraðagreinum og Katrín Tanja við Hafþór Júlíus í kraftagreinum.

Katrín Tanja Davíðsdóttir,Vísir/GVA
„Við setjum þetta upp þannig að þetta eru lið og liðið er tveir strákar og ein stelpa. Svo eru greinarnar þannig að þú velur einn úr liðinu til að takast á við eina af greinunum. Í keppninni verður til dæmis 140 kílóa drumbalyfta og þú setur ekki Katrínu Tönju í hana heldur myndir þú velja Hafþór. Svo þarf að ganga á höndum og þá velur þú ekki Hafþór heldur Katrínu Tönju til að gera það. Heilt yfir þurfa þau liðin að vinna vel saman en það kemur smá sérhæfing inn á milli,“ segir Evert.

Góðvildin ræður för

Eins og fyrr segir er okkar besta fólk í þessum aflraunagreinum atvinnumenn á sínu sviði en Evert segir peningana ekki hafa lokkað þau á þetta mót. „Það er góðvildin. Það verða einhver smá peningaverðlaun en aðallega er þetta góðvild,“ segir Evert.

Hann segir þau öll vera góða vini sem vilji gera eitthvað skemmtilegt saman. Erlendu keppendurnir eru allt vinir þeirra sem þau bjóða hingað til lands með hjálp WOW Air til að keppa og hafa gaman á Íslandi.

Evert hvetur alla til að mæta og lofar magnaðri sýningu. „Þetta verður bara eins og eitt stórt sirkusatriði. Við verðum með áhorfendastúkur þar sem 500 manns komast í sæti, miðar fást á Tix.is. Við stúkum af hluta af CrossFit Reykjavík þar sem þetta er haldið og íþróttamennirnir verða í miðjunni, þannig að þetta verður eins og ljónagryfja. Við slökkvum ljósin, það verða kastarar, reykur og rakettur. Þetta verður bara sýning.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×