Innlent

Stærsta vandamál spítalans enn óleyst

Svavar Hávarðsson skrifar
Fjármögnun Landspítalans hefur verið breytt á þann hátt að tekið hefur verið upp afkastatengt kerfi í stað fjárveitinga á föstum fjárlögum. Samningur þessa efnis var undirritaður í vikunni og markmiðið er að tryggja árangursríka heilbrigðisþjónustu og hagkvæmari nýtingu þeirra fjármuna sem renna til spítalans.

Ísland síðast

Samningurinn byggist á DRG-flokkunarkerfinu, alþjóðlegu flokkunarkerfi, sem lýtur að því að skilgreina kostnað að baki hverri aðgerð eða meðferð og sjá nákvæmlega hvernig fjármunum er varið. Samningurinn gildir frá ársbyrjun og verður endurskoðaður í haust. Því verður unnið eftir samningnum á þessu ári til reynslu og hann mun því ekki hafa fjárhagsleg áhrif á rekstur Landspítala. Stefnt er að því að samningurinn, sem er á milli LSH og Sjúkratrygginga Íslands, komi að fullu til framkvæmda árið 2017.

Það má segja að með samningnum sé hnýttur endahnúturinn á mál sem hefur lengi verið í undirbúningi, en strax árið 1983 kom þetta til umræðu. Ísland er síðast af 34 löndum innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) til að innleiða þessa aðferðafræði. Reyndar eru áratugir síðan þessu var komið á víðast hvar, og við rúmum aldarfjórðungi á eftir Norðurlöndunum, til dæmis.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir það stjórnvalda að svara því af hverju þessi umfangsmikla breyting er gerð nú, en ekki miklu fyrr. Hann bendir þó á að tíma hafi þurft til að byggja upp þekkingu og traust á DRG-kerfinu víðar en innan Landspítala.

Í tilkynningu velferðarráðuneytisins er þessari spurningu svarað að hluta. Þar stendur einfaldlega að „samningurinn grundvallast á stefnu heilbrigðisráðherra á sviði sjúkrahúsþjónustu“. Með öðrum orðum snýst þetta um pólitískan vilja.

Sjúkratryggingar Íslands voru stofnaðar árið 2008, og það var stefna stjórnvalda á þeim tíma að taka kerfið upp. Lögin um Sjúkratryggingar gerðu beinlínis ráð fyrir því. Þegar vinstristjórn tók við eftir hrun voru þessar hugmyndir slegnar með öllu út af borðinu. Við ríkisstjórnarskiptin árið 2013 var málið svo tekið upp aftur og undirbúningur hafinn. Að tímasetningin nú sé tengd boðuðum kosningum í haust getur varla talist langsótt.

Sameining ýtir við málinu

Sameining tveggja stærstu sérgreinasjúkrahúsa landsins, Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur, í eitt hátækni- og kennslusjúkrahús ýtti undir innleiðingu DRG-flokkunarkerfisins. Má rifja upp að eiginlegt sameiningarferli hófst með því að ríkið yfirtók rekstur Sjúkrahúss Reykjavíkur í janúar 1999.

Ákvörðun um sameiningu var síðan tekin í febrúar árið 2000 og varð þá til Landspítali – háskólasjúkrahús (LSH). Þá hófst innleiðing starfsemis­greiningarinnar (DRG-flokkunar) og smíði kostnaðargreiningarkerfis spítalans. Öll starfsemi hans hefur verið greind samkvæmt DRG-flokkunarkerfinu frá 2003 og kostnaðargreining klínískrar starfsemi er til frá 2006.

Stórfé

En hefur Landspítalinn – heilbrigðiskerfið – dregist aftur úr vegna þess hversu seint þetta kerfi er tekið upp? Er heilbrigðiskerfið búið að tapa stórfé – því ef mælikvarðar venjulegs heimilishalds eru lagðir á breytinguna þá virðist það ekki vera líklegt til árangurs að vita ekki „hvernig fjármunum er varið og hvernig þeir nýtast“, eins og segir í tilkynningu ráðuneytisins með vísan til þess sem var.

Eftir því sem næst verður komist er ekki hægt að setja verðmiða á það sem á undan er gengið. Hins vegar er talið óhrekjanlegt að stjórnendur Landspítalans hafa ekki haft færi á að vinna sín verk á sem hagkvæmastan hátt. Leikmaður gæti séð þetta með þeim hætti að það sé þeim sem fá fasta fjárveitingu í hag að gera sem minnst. Með gegnsæi DRG-kerfisins komi hins vegar hvati til að spítalinn „framleiði“ meira, enda sjá allir hvað hlutirnir kosta. Þannig komi þetta til með að gagnast öllum þegar gegnsæi fæst á starfsemina.

Stóra vandamálið óleyst

Páll forstjóri útskýrir að eftir sem áður séu fjárveitingar til Landspítalans ákvarðaðar af Alþingi. „Stórt mál sem DRG-kerfið leysir ekki er sú staðreynd að veruleg undirfjármögnun hefur átt sér stað alla þessa öld og lengur á Landspítala.

Það er ljóst að vilji þjóðarinnar stendur til þess að bæta það með stórauknum framlögum til heilbrigðiskerfisins, þar á meðal Landspítala,“ segir Páll.

Í hvað fara peningarnir?

l Framleiðslutengd fjármögnun felur í sér að í stað þess að byggja fjármögnun sjúkrahúss alfarið á föstum fjárlögum sem ákveðin eru ár fram í tímann, er meginhluti hennar byggður á ítarlegri kostnaðargreiningu. Með því eiga framlögin að samræmast raunverulegum kostnaði þannig að auðvelt verði að sjá hvernig fjármunum er varið og hvernig þeir nýtast.

Við fjármögnun Landspítala er gert ráð fyrir að meginhluti rekstrarins verði framleiðslutengdur [klíníski hlutinn], en verkefni sem t.d. tengjast hlutverki LSH á sviði kennslu og vísinda, stofnkostnaður og meiriháttar viðhald verður fjármagnað samkvæmt föstum fjárlögum, auk sértekna og gjafa. Er þetta módel eins í öllum aðalatriðum og þau kerfi sem notuð eru í Noregi og Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×