Innlent

Stærsta vandamál í dýravernd á Íslandi óleyst

salome@365.is skrifar
Oft líður langur tími frá því dýraverndunarmál kemur upp þar til gripið er til aðgerða.
Oft líður langur tími frá því dýraverndunarmál kemur upp þar til gripið er til aðgerða.
Nefnd um dýravelferð skilaði af sér tillögum sínum að frumvarpi til nýrra laga um málaflokkinn síðastliðinn mánudag, þann 11. júlí. Árni Stefán Árnason, dýraréttarlögfræðingur segir að þó svo orðalag laganna auki greinilega vernd dýra, hafi hann orðið fyrir vonbrigðum með drögin en hann óttast að lögin muni ekki leysa stærsta vandamálið í dýravernd á Íslandi, verði tillagan samþykkt í óbreyttri mynd.

"Helsta vandamálið í dýravernd á Íslandi undanfarið hefur verið að þegar mál koma upp, þá hefur kerfið virkað mjög seint. Það hefur yfirleitt tekið óralangan tíma að koma dýrum til bjargar." segir Árni en stefnt er að því að úr þessu verði bætt með nýju lögunum.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum á að færa alla stjórnsýsluframkvæmd í dýraverndunarmálum til matvælastofnunar, en slík ákvörðun þykir Árna torskiljanleg þar sem stofnunin hafi verið gagnrýnd fyrir að sinna ekki nógu vel því hlutverki sem hún gegnir í dag. Það sé því hæpið að ákjósanlegt sé að bæta við verksvið stofnunarinnar og telur Árni líklegt að dýraverndunarmál muni áfram sitja á hakanum verði sú tilhögun að veruleika.

Að mati Árna ætti umsjón dýraverndunarmála að vera í höndum aðila sem hafi það afmarkaða hlutverk að bregðast við útköllum vegna illrar meðferðar á dýrum, og bendir hann í því samhengi á sænsku dýralögregluna, sem nú hefur starfað þar í landi í nokkur ár með góðum og skjótum árangri.

Árni segir orðalag laganna þó greinilega auka vernd dýra en hann vonast til þess að úrbætur verði gerðar á lögunum áður en þau verði samþykkt. "Ég hef fulla trú á því að Alþingi taki mark á þeim ábendingum um velferð dýra sem fram hafa komið í fjölmiðlum undanfarið og komi þessum málstað málleysingjanna til hjálpar."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×