Viðskipti innlent

Stærsta kalkþörungaverksmiðja landsins í bígerð í Súðavík

Ingvar Haraldsson skrifar
Svona gæti verksmiðjan í Súðavík litið út. Kalkþörunganámið verður nær helmingi meira en í kalkþörungaverksmiðjunni á Bíldudal.
Svona gæti verksmiðjan í Súðavík litið út. Kalkþörunganámið verður nær helmingi meira en í kalkþörungaverksmiðjunni á Bíldudal.
Íslenska kalkþörungafélagið hyggst reisa stærstu kalkþörungaverksmiðju landsins í Súðavík. Stefnt er á að framkvæmdir við verksmiðjuna hefjist eftir tvö og hálft til þrjú ár. Um tuttugu manns muni starfa í verksmiðjunni.

Sækja á 120 þúsund rúmmetra af kalkþörungi árlega fyrir vinnslu í verksmiðjuna við Æðey og Kaldalón í Ísafjarðardjúpi. Kalkþörunganámið verður nær helmingi meira en í einu kalkþörungaverksmiðju landsins sem Íslenska kalkþörungafélagið rekur á Bíldudal.

Áformin eru þó háð umhverfismati hjá Umhverfisstofnun. Sigurður R. Helgason, stjórnarformaður Íslenska kalkþörungafélagsins, á þó ekki von á öðru en að Umhverfisstofnun leggi blessun sína yfir starfsemina.

Sigurður telur verksmiðjuna geta haft afar jákvæð áhrif á atvinnulíf við Ísafjarðardjúp. „Sérstaklega þar sem byggðaþróun hefur ekki verið upp á það besta á þessu svæði,“ segir Sigurður.

Verksmiðjan er enn á hönnunarstigi. Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, segir að fjárfestingar vegna verksmiðjunnar á Bíldudal hafi numið átta milljónum evra, tæplega 1,2 milljörðum króna. Gera megi ráð fyrir öðru eins vegna nýju verksmiðjunnar í Súðavík.

Þá hefur Marigot Ltd., móðurfélag Íslenska kalkþörungafélagsins, hug á blautþörungavinnslu í Stykkishólmi og vinnur nú að hagkvæmnikönnun vegna þess. Þau áform eru þó komin skemmra á veg en fyrirhuguð verksmiðja í Súðavík að sögn Sigurðar.

Kalkþörungar eru m.a. nýttir í fóður fyrir húsdýr, til vatnshreinsunar og í bætiefni til manneldis. Sigurður segir afurðir kalkþörungafélagsins vera seldar um allan heim, m.a. ofan í úlfalda í Sádi-Arabíu og til Ástralíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×