Innlent

Stærsta jólaveisla Hjálpræðishersins hingað til

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Gert er ráð fyrir að yfir þrjú hundruð manns komi á árlegan jólafögnuð Hjálpræðishersins í Ráðhúsi Reykjavíkur sídegis í dag, en það verður stærsta jólaveisla sem Hjálpræðisherinn hefur haldið hingað til. Jólaveislan fer fram í tjarnarsal Ráðhússins annað árið í röð. Hátíðarhöldin hefjast klukk­an fjög­ur með jóla­trés­skemmt­un og klukk­an sex er boðið upp á jólamat. Að lok­um verða all­ir leyst­ir út með gjöf­um.

„Þetta eru hælisleitendur, heimilislausir, einmana fólk og ferðamenn. Bara allur skalinn. Mér finnst þetta yndislegt. Það er mikið af fólki allstaðar frá. Fólk er fólk, það skiptir ekki máli hvaðan það er,“ segir Sigurður Ingimarsson flokksleiðtogi í Hjálpræðishernum. 

Von á metfjölda barna

Upphaflega var búist við um tvö hundruð manns í matinn en í gær bættist óvænt við sjötíu manna hópur, þar af þrjátíu börn. Metfjöldi barna sækir jólaveislu Hjálpræðishersins í ár, þau yngstu aðeins nokkurra mánaða gömul.

„Það bættist við alveg hellingur af fólki. Það verður hellingur af fólki, alveg þrjú hundruð manns, alveg pottþétt. Plús kannski einhverjir ferðamenn sem komast ekki á veitingastaði og slíkt. Við erum að búast við öllu,“ segir Sigurður. 

Ásamt gest­um verður stór hópur sjálf­boðaliða á staðnum. Sigurður segir það alltaf koma sér á óvart hve margir vilji hjálpa.

„Ég er bara hissa í hvert skipti, hvert ár, það bætist alltaf í. Núna eru komnir yfir sjötíu sjálfboðaliðar. Ég er bara eins og lítið barn núna, að upplifa jólin svona. Þetta eru jólin fyrir mér.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×