Innlent

Stærsta einstaka pöntun frá upphafi

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Neyðin er mikil víða um heim.
Neyðin er mikil víða um heim. Nordicphotos/AFP
Nýlega voru sendir utan tugir þúsunda hjálpargagna í nafni 600 íslenskra fyrirtækja og var kostnaðurinn þrjár milljónir króna. Er þetta stærsta einstaka pöntun frá upphafi, samkvæmt tilkynningu frá UNICEF.

Í lok janúar var listi yfir þau 624 fyrirtæki sem hlutu viðurkenningu Creditinfo fyrir framúrskarandi árangur í rekstri kynntur. Meira en helmingur á í viðskiptasambandi við Landsbankann og gaf bankinn í þeirra nafni sannar gjafir hjá UNICEF fyrir þrjár milljónir króna, en aldrei hefur verið gerð svo stór pöntun frá Íslandi. Hagnaður Landsbankans á árinu 2016 nam 16,6 milljörðum króna, eftir skatta, samanborið við 36,5 milljarða króna á árinu 2015. Í árslok 2016 námu eignir bankans alls 1.111 milljörðum króna.

„Við erum innilega þakklát fyrir þetta ótrúlega rausnarlega framlag,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. „Við höfum aldrei fengið jafn stóra pöntun á sönnum gjöfum og erum hæstánægð með þetta,“ segir Vala Karen Viðarsdóttir, fjáröflunarfulltrúi UNICEF. Gjöfunum verður nú dreift til barna og fjölskyldna þeirra með milligöngu birgðastöðvar UNICEF. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×