Innlent

Staðfestir sýknu Reynis og Jóns Trausta

Atli Ísleifsson skrifar
Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, fyrrverandi ritstjórar DV.
Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, fyrrverandi ritstjórar DV. Vísir/Heiða
Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem feðgarnir Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, þáverandi ritstjórar DV, eru sýknaðir af stefnu Hilmars Þórs Leifssonar.

Hilmar Þór hafði stefnt Reyni og Jóni Trausta fyrir meiðyrði vegna fréttar sem birt var í DV helgina 3. til 7. ágúst árið 2012 sem bar yfirskriftina „Láglaunamenn í undirheimum“.

Í dómsorðum Hæstaréttar segir að Hilmar Leifsson skuli greiða stefndu hvorum fyrir sig 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Í frétt DV var fullyrt að Hilmar Þór tengist eða hafi tengst glæpasamtökunum Hells Angels og hann sé félagi í samtökum sem stundi skipulagða glæpastarfsemi. Í fréttinni segir að Hilmar sé háttsettur í stærstu glæpasamtökum heims. Síðan segir að mánaðarlaun opinberra meðlima í íslenskum undirheimasamtökum séu ekki há og því séu láglaunamenn í undirheimunum.

Í fréttinni var Hilmar Þór nafngreindur og upplýst að mánaðarlaun hans séu 19 þúsund krónur á mánuði. Í stefnu Hilmars Þór á hendur feðgunum sagði meðal annars að fréttin yrði ekki skilin öðruvísi en svo að framgreind mánaðarlaun stefnanda séu vegna starfa hans í undirheimunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×