Erlent

Staðfestir að Abouyaaqoub hafi ekið bílnum

Atli Ísleifsson skrifar
Lögreglustjórinn Josep Lluís Trapero segir að af þeim tólf mönnum sem grunaðir eru um aðild að árásinni sé einungis einn, Abouyaaqoub, sem sé enn leitað.
Lögreglustjórinn Josep Lluís Trapero segir að af þeim tólf mönnum sem grunaðir eru um aðild að árásinni sé einungis einn, Abouyaaqoub, sem sé enn leitað. Vísir/getty
Lögregla á Spáni hefur staðfest að hinn 22 ára Younes Abouyaaqoub hafi verið sá sem ók hvíta sendiferðabílnum á gangandi vegfarendur á Römblunni í Barcelona á fimmtudag þar sem þrettán létu lífið. Abouyaaqoub er nú leitað alls staðar í Evrópu.

Í frétt BBC er haft eftir lögreglu að ekki sé talið útilokað að Abouyaaqoub hafi flúið yfir landamærin til Frakklands.

Spænskir fjölmiðlar hafa birt nýjar myndir úr öryggismyndavélum þar sem sjá má Abouyaaqoub flýja fótgangandi af vettvangi. Sést hann fara, klæddur sólgleraugum, í gegnum markaðinn La Boqueria frá Römblunni, ásamt öðrum sem eru að flýja frá vettvangi.

Lögregla í Katalóníu hefur birt nýjar myndir af hinum 22 ára Younes Abouyaaqoub.Mossos d'Esuadra
Lögregla rannsakar nú hvort að Abouyaaqoub hafi stungið spænskan mann og stolið bíl hans um níutíu mínútum eftir árásina á Römblunni. Um tveimur tímum eftir árásina fannst hinn 34 ára Pau Pérez frá bænum Vila Franca látinn. Hann er því talinn vera sá fimmtándi sem lét lífið í hryðjuverkaárásinni.

Alls fórust þrettán manns þegar bílnum var ekið niður Römbluna og þá fórst ein kona í árás í bænum Cambrils nokkrum tímum síðar.

Lögreglustjórinn Josep Lluís Trapero sagði frá því í gær að af þeim tólf mönnum sem grunaðir eru um aðild að árásinni sé einungis einn, Abouyaaqoub, sem sé enn leitað. Fimm þeirra létu lífið í Cambrils, fjórir eru í haldi lögreglu og enn eigi eftir að bera kennsl á líkamsleifar tveggja manna sem fórust eftir að springing varð í húsi í bænum Alcanar, suður af Barcelona á miðvikudagskvöldið. Telur lögregla að húsið hafi verið notað sem sprengjuverksmiðja fyrir enn skæðari árás.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×