Innlent

Staðfesta stjórnarsáttmálann í dag

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar á fundi um mögulega stjórnarmyndun.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar á fundi um mögulega stjórnarmyndun. Vísir/Eyþór
Stofnanir Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar koma saman til fundar á morgun til að staðfesta þátttöku flokkanna í ríkisstjórn. Ný ríkisstjórn flokkanna þriggja verður kynnt á þriðjudag eða miðvikudag samkvæmt upplýsingum fréttastofu.

Þingflokkur Viðreisnar kemur saman til fundar eftir hádegi í dag til að ræða þær athugasemdir sem þingflokkur Sjálfstæðisflokks gerði við drög að stjórnarsáttmála flokkanna í gær. Í kjölfarið er fyrirhugað að forystufólk flokkanna þriggja staðfesti sáttmálann síðar í dag.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu liggur ekki fyrir endanlegt samkomulag um skiptingu ráðuneyta en það verður einnig klárað í dag.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom saman í Valhöll í gær þar sem drög að stjórnarsáttmála flokkanna þriggja var kynntur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar komu einnig saman til fundar í gær til að ræða hvar og hvernig ný ríkisstjórn verður kynnt.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokkinn, sagði eftir fundinn í Valhöll að sjálfstæðismenn væru heilt yfir sáttir við þann málefnagrunn sem er lagt upp með í þessu fyrirhugaða ríkisstjórnarsamstarfi.

Ríkisstjórn flokkanna verður með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi, 32 þingmenn. Bjarni sagði að þessi naumi meirihluti hafi verið ræddur á fundinum, en flokkurinn sé einfaldlega að reyna að vinna með þá stöðu sem upp sé komin.


Tengdar fréttir

Furðar sig ekki á gagnrýni

"Það eru engar skýrar línur í pólitíkinni,“ segir Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar um myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn. Hann segist taka þátt í samstarfinu af heilindum og segir ekki ósætti í flokknum um samstarfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×