Innlent

Staða Íslendinga sterkari í Icesave deilunni

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Lögmaður sem sat í Icesave samninganefndinni telur að staðfesting neyðarlaganna fyrir Hæstarétti í gær styrki málstað Íslendinga og dragi úr áhættu ef illa fer í Icesave málinu fyrir EFTA dómstólnum.

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, á enn eftir að ákveða hvort Icesave málið fari fyrir EFTA dómstólinn, en ef svo fer verður tekist á um hvort Íslendingar hafi brotið gegn EES samningnum og ríkissjóði borið að tryggja innistæður breskra og hollenskra sparifjáreigenda. Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður sem sat í Icesave samninganefndinni, segir að dómur hæstaréttar um að neyðarlögin haldi hafi jákvæð áhrif á stöðu Íslands og innistæðutryggingasjóða í Bretlandi og Hollandi verði málinu fram haldið.

„Það þýðir að ef einhvertíman verður talið að Ísland hafi brotið gegn EES samningnum, og spurningar rísa um skaðabótaskyldu vegna þess, þá er tjónið margfalt minna hjá Bretum og Hollendingum, heldur en ef neyðarlögin hefðu ekki staðist," segir Jóhannes Karl.

Fréttir bárust fyrir nokkru af því að eignir í þrotabúi Landsbankans myndu að öllum líkindum duga fyrir öllum forgangskröfum í búið samkvæmt neyðarlögunum, þar á meðal heildsöluinnlánum sveitarfélaga og líknarfélaga, og nú hefur lögmæti neyðarlaganna verið staðfest. Geta Íslendingar þá leyft sér að vera bjartsýnir á framhald málsins?

„Ég er sjálfur hóflega bjartsýnn auðvitað," segir Jóhannes. „Það er áhætta fólgin í þessu ágreiningsmáli eftir sem áður, en þetta er tvímælalaust jákvæð frétt. Hún mun styrkja málstað okkar og draga úr áhættunni ef illa fer."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×