Viðskipti innlent

Staða Íbúðalánasjóðs verður áfram erfið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Uppgreiðslur munu áfram reynast Íbúðalánasjóði erfiðar.
Uppgreiðslur munu áfram reynast Íbúðalánasjóði erfiðar.
Áfram verður taprekstur á rekstri Íbúðalánasjóðs og eiginfjárstaða sjóðsins verður slæm áfram. Sjóðurinn verði áfram háður framlögum úr ríkissjóði. Þetta er mat lánshæfismatsfyrirtækisins Moody´s sem birti álit í dag. Moody´s gefur Íbúðalánasjóði einkunnina Ba1 með stöðugum horfum. Það er óbreytt einkunn.

Moody´s segir að eignir Íbúðalánasjóðs séu ekki góðar vegna fjölda vandræðalána og það hafi slæm áhrif á eiginfjárstöðu sjóðsins. Ríkissjóður hafi lagt Íbúðalánasjóði til 51 milljarð króna frá hruni fjármálakerfisins, en þrátt fyrir það nái sjóðurinn ekki fimm prósent eiginfjárhlutfalli. Íbúðalánasjóður muni líklegast veita sjóðnum áfram framlag, en ríkisábyrgð sé þó ekki gulltryggð til framtíðar.

Þá segir Moody´s að fyrirhugaðar skuldaniðurfellingar muni leiða til þess að eignasafn Íbúðalánasjóðs verði betra þegar vandræðalánum fækkar. Þetta muni hafa jákvæð áhrif á eiginfjárstöðu sjóðsins. Áframhaldandi uppgreiðslur lánþega sjóðsins muni hins vegar reynast honum erfiðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×