Erlent

Støjberg fagnaði hertri innflytjendastefnu með tertu

Atli Ísleifsson skrifar
Inger Støjberg er ráðherra innflytjendamála í Danmörku.
Inger Støjberg er ráðherra innflytjendamála í Danmörku. Vísir/AFP
Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála í Danmörku, fagnaði því á þriðjudag að hafa náð í gegn fimmtugustu aðgerðinni í ráðherratíð sinni sem miðar að því að herða innflytjendalöggjöf í landinu.

Støjberg birti mynd af sjálfri sér á Facebook á þriðjudag þar sem hún sést haldandi á tertu með dönskum fána, tölunni 50 og ávöxtum og hefur ráðherrann nú sætt gagnrýni fyrir birtingu myndarinnar.

„Í dag náði ég í gegn 50. breytinguna til að herða stjórn á innflutningi fólks. Þessu verður að fagna!“ sagði ráðherrann.

Á meðal aðgerða ríkisstjórnarinnar eru meðal annars auknar tungumálakröfur, möguleika á að handtaka hælisleitendur á meðan verið sé að bera kennsl á þá og möguleikann á að fara fram á að hælisleitendur láti af hendi verðmæti, líkt og skartgripi, til að standa straum af uppihaldi þeirra í Danmörku.

Á samfélagsmiðlum hafa margir gagnrýnt ráðherrann fyrir myndina og segja hana ósmekklega. Støjberg segir þó í samtali við Ekstrabladet að það sé fullkomlega eðlilegt að fagna pólitískum sigrum.

Skopmyndateiknari Politiken hefur birt mynd á Twitter af stúlku á flótta án handleggja við hlið Støjberg með textanum „Engir handleggir – engin terta“.

Rauði krossinn í Danmörku hefur einnig birt eigin tertumynd þar sem fólk er hvatt til að gefa fimmtíu danskar krónur með því að senda sms-ið „kage“, eða „terta“ í söfnunarnúmer og styðja þannig fórnarlömb stríðsins í Sýrlandi.

Støjberg bendir á að meirihluti danska þingsins hafi greitt atkvæði með þessari hertu innflytjendastefnu og að með henni megi auka framlög til hjálparstarfs.

„Ég hef margoft sagt að við ætlum að takmarka innflutning fólks, og þar sem þetta hefur nú tekist, þá getum við lagt milljarð [danskra] króna í hjálparstarf á nærsvæðum. Þannig að ef ég starfaði hjá Rauða krossinum þá myndi ég fagna því að milljarður króna bætist við,“ segir Støjberg við Ekstrabladet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×