Innlent

Spyr um auglýsingar ríkisstjórnarinnar

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Katrín Júlíusdóttir.
Katrín Júlíusdóttir. vísir/vilhelm
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur óskað eftir skriflegu svari frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra um auglýsingar ríkisstjórnarinnar. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt auglýsingar ríkisstjórnarinnar og segja hana misnota aðstöðu sína.

Katrín vill meðal annars vita hversu miklu fjármagni hafi verið varið í auglýsingar frá ríkisstjórninni, hvar sú ákvörðun um að auglýsa hafi verið tekin og af hvaða fjárlagalið þær séu greiddar. Þá vill hún vita hvers vegna ákveðið hafi verið að ráðast í birtingu auglýsinga „til að kynna sérstaklega verk ríkisstjórnarinnar“.

„Telur forsætisráðherra þetta upplýsingar er varða slíka almannahagsmuni að setja beri fjármuni í að auglýsa? Hafa þessar upplýsingar ekki birst í fjölmiðlaumfjöllun um þjóð- og efnahagsmál eða verið aðgengilegar að öðru leyti?,“ spyr Katrín.

Hún spyr jafnframt um stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi auglýsingar og hvort forsætisráðherra telji eðlilegt að auglýsa án þess að um sérstakar leiðbeiningar eða nauðsynlegar upplýsingar til almennings sé að ræða. „Hvar liggja mörk upplýsingaskyldu og flokkapólitískrar auglýsingaherferðar að mati ráðherra?“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×