Innlent

Spurningalisti Blátt áfram gagnrýndur

Anna Guðjónsdóttir skrifar
Hefur ekki fengið svör Berglind vildi fá að sjá spurningarnar og þau leyfi sem samtökin ættu að hafa til að leggja spurningalista fyrir börnin. Nordicphotos/Getty
Hefur ekki fengið svör Berglind vildi fá að sjá spurningarnar og þau leyfi sem samtökin ættu að hafa til að leggja spurningalista fyrir börnin. Nordicphotos/Getty
Móðir stúlku í Háteigsskóla gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð samtakanna Blátt áfram eftir fyrirlestur þeirra um kynferðislegt ofbeldi fyrir nemendur í 8. bekk skólans. Foreldrar nemenda fengu ekki tilkynningu um fyrirlesturinn fyrr en eftir að hann var fluttur.

„Með tilkynningunni kom fram að börnin ættu að svara spurningum í tengslum við fyrirlesturinn. Ég bað um að fá að sjá listann og þau leyfi sem þau ættu að hafa til að leggja slíka lista fyrir börnin. Ég hef ekki fengið nein svör,“ segir Berglind Gísladóttir, móðir nemanda.

„Það getur vel verið að þetta séu saklausar spurningar, en foreldrar eiga að fá að vita um svona hluti. Þessi vinnubrögð tel ég að séu ekki leyfileg og brjóti gegn persónuvernd,“ segir Berglind. „Spurningarnar voru aldrei sendar eftir að ég hafði samband við skólayfirvöld.“

Guðrún Helga Bjarnadóttir, starfsmaður Blátt áfram sem flutti fyrirlesturinn, segir mikilvægt að foreldrar séu ekki látnir vita áður en fyrirlestrarnir eru haldnir. „Það eru dæmi um að börn og jafnvel systkinahópar sem verða fyrir ofbeldi heima hjá sér mæti ekki þann dag sem fyrirlesturinn fer fram. Ef það er verið að brjóta á þeim vilja þeir aðilar ekki að börnin fái fræðslu um það,“ segir Guðrún. Hún segir að börnin fái spurningalista eftir fyrirlesturinn sem þau séu ekki skyldug til að svara. Listarnir eru nafnlausir.

Berglind segir að í póstinum sem foreldrar fengu hafi komið fram að bekkurinn hefði fengið fyrirlestur frá Guðrúnu Helgu um kynferðislegt ofbeldi. „Ég bað þá um að fá upplýsingar um hver menntun hennar væri og hvers vegna hún væri talin fær til að ræða svona viðkvæmt málefni við grunnskólabörn. Ég fékk þau svör að hún væri leikskólakennari,“ segir Berglind.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru spurningarnar á listanum flestar almennt í tengslum við fyrirlesturinn.

Hvað lærðir þú á fyrirlestrinum? Hvað þótti þér áhugaverðast? Kom eitthvað á óvart? Eitthvað sem þú vilt spyrja um? Eitthvað sem þú vilt fá að vita um kynferðislegt ofbeldi?

Á listanum voru einnig spurningar um hvort börnin teldu sig treysta einhverjum fullkomlega og ef svo væri hver það væri.

Skólastjóri Háteigsskóla segir að mistök hafi átt sér stað með spurningalistanum og að málið verði skoðað frekar. Hann segir þó að samstarfið hafi gengið vel í gegnum árin. Hann vildi ekki tjá sig meira um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×