Skoðun

Spunaárásir

Jónas Gunnar Einarsson skrifar
Furðuleg spunaárátta er algeng í opinberri umræðu hérlendis.

Spunaárásir og spunavarnir, með tilheyrandi óþarfa misskilningi, átökum og sundurlyndi. Rökstuddum marktækum upplýsingum ósjaldan misþyrmt með úrfellingum og/eða við­bót­um, hótfyndni eða haldið leyndum, með tilheyrandi verri lausn og verri ákvörðun.

Framleiðslu, úrvinnslu og miðlun hagtalna er til dæmis enn áfátt hér á landi, samanborið við nágrann­alöndin; einnig öflugu eftirliti með opinberum upplýsingum, sbr. áreiðanleika­kann­anir erlendra fjölmiðla og sjálfstæða upplýsingavinnslu verkalýðsfélaga, neytenda­sam­taka og fleiri aðila sem vakta opinberar upplýs­ingar og koma í veg fyrir misneytingu hvers konar með sjálfstæðri öflugri miðlun.

Ef hér á landi væri eins og á að vera og þarf að vera hefði til dæmis mátt búast við því að þessir aðilar, brjóstvörn almennings, hefðu umsvifalaust svarað nýjustu spunaárásinni á okkur, góða landsmenn. Spunaárás sem því miður er enn ein spunaárásin í þágu banka og annarra söluaðila okurlána hérlendis.

Spunaárásin úr virki Hagstofunnar og hljóp um Hagtíðindin og valtaði yfir Moggann, sbr. mbl. 13 nóv. 15 á bls. 16 þar sem fullyrt er að 16% af ráðstöfunartekjum „dæmigerðs“ húsnæðis­eiganda hérlendis sé varið til þess að mæta hús­næðiskostnaði, þ.e. kostnaði vegna vaxta og verð­bóta húsnæðislána, kostnaði vegna rafmagns og hita, viðhalds og viðgerða, o.fl.

Spunaárás ósvífin af því að sextán prósent af meðalsráðstöfunartekjum duga ekki til þess að greiða mánaðarlegan greiðsluseðil af minnstu íbúðarkytru höfuðborgarsvæðisins ef það hosíló ber 85% húsnæðislán miðað við algengt verðmat. Það vita flestir sem keypt hafa verð­tryggðu (og óverðtryggðu) húsnæðislánin með okurvöxtunum af íslenskri bankastofnun.

Er þá eftir stóri húsnæðiskostnaðurinn vegna síendurlánaðra verðbóta á höfuðstól sem við dæmigert verðbólgustig hækka dæmigert verðtryggt húsnæðislán um eina milljón eða tvær ár hvert, með tilheyrandi áföllnum vöxtum og verðbótum út lánstímann. Lán seld í smásölu neytendum sem miðað við meðaltalsráðstöfunartekjur leiða til greiðsluerfiðleika og gjaldþrots á seinni hluta lánstíma vegna yfirskuldsetningar af völdum taumlauss verðbóta­þáttar og sam­svarandi ofurgreiðslubyrði af völdum ofurvaxta og afborgana.

Þessi þrældómslán fá hvergi þrifist á markaði í okkar nágrannalöndum. Hérlendis samt enn skammlaust seld framtíðinni, húsnæðiskaupendum og námsmönnum, eða þau dulbúin og seld sem óverð­tryggð lán með breyti­legum og/eða föstum ofurvöxtum með sitt bjargfasta viðmið hæsta spáverðbólgustig. Við faglega framleiðslu hagtalna, eftirlit og miðlun yrðu svona ömurleg samfélagsvandamál betur sýnileg. Mætti þá t.d. búast við skárri meðhöndlun dómsvaldsins á þeim álitamálum sem enn hafa ekki fengist leiðrétt fyrir íslenskum dómstólum, þrátt fyrir sönnuð brot á gildandi lögum við kaup á séríslenskum okurlánum.

Með eindreginni ósk og von um að lífeyrissjóðirnir kaupi bankana, búi almenningi sambærileg kjör á hús­næðis­lánum og námslánum og best tíðkast í okkar nágrannalöndum og helst betri; skuldbindi sig til að eiga sína eignarhluti í bönkunum í tíu ár minnst, láti á þeim tíma ógert að skrá bankana á hlutabréfamarkað (vegna afgerandi stærðar ská og skjön) og líði ekki kenni­tölusöfnun; komi þannig í veg fyrir nýtt 2007 með samsvarandi hausti 2008.

Að auki yrði þá loksins spornað hart við vaxandi brottflutningi ungs fólks og menntafólks úr landi í leit að lífs­kjörum við hæfi.




Skoðun

Sjá meira


×