Innlent

Sprungið skólakerfi í Grindavík

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Tveir leikskólar eru í Grindavík og eru þeir báðir búnir að sprengja utan af sér. Ekki er gert ráð fyrir fjármagni til að stækka leikskólann á næsta ári.
Tveir leikskólar eru í Grindavík og eru þeir báðir búnir að sprengja utan af sér. Ekki er gert ráð fyrir fjármagni til að stækka leikskólann á næsta ári. Vísir/Vilhelm
Fríða Egilsdóttir Mynd/grindavik.is
Skólakerfið í Grindavík er sprungið, bæði í leik- og grunnskóla. Bærinn hefur vaxið svo hratt að dæmi eru um börn sem komast ekki inn í leikskóla fyrr en þau eru orðin tveggja og hálfs árs. Grunnskólinn í bænum, Hópskóli, er svo þéttsetinn að kennsla fer jafnvel fram á göngunum. Skólastjórnendur grunn- og leikskóla lögðu fram bókun á fundi fræðslunefndar í vikunni þar sem þeir lýstu yfir vonbrigðum nefndarinnar með niðurstöðu fjárhagsáætlunar um skólana næstu árin. Þar kemur fram að ekki er gert ráð fyrir fjármagni árið 2017 til að hefja undirbúning að stækkun grunn- og leikskóla. 

Fríða Egilsdóttir, leikskólastjóri á leikskólanum Laut, segir að stýrihópur hafi verið settur á laggirnar vegna langs biðlista í leikskólann og yfirfulls grunnskóla. Stýrihópurinn skoðaði meðal annars spá um íbúafjölgun í bænum og komst að því að byggja þarf við leikskólann og stækka grunnskólann áður en illa fer. Í bókun hans kemur fram að svo virðist sem framtíðarsýn starfshópsins hafi verið virt að vettugi.

„Að mati hópsins þá þarf að fara að huga að því að byggja við leikskólann og stækka grunnskólann, ef bærinn ætlar að standa undir nafni, Grindavík – Góður bær. En þegar fjárhagsáætlunin um skólana var tekin fyrir, þá kom í ljós að það var ekkert gert í tillögum okkar, sem ég var ekki sátt við,“ segir hún. Í stýrihópnum voru fulltrúar foreldra í bænum, frá skólaskrifstofunni og skólastjórnendum, bæði grunn- og leikskóla.

„Báðir leikskólarnir hér í Grindavík eru smekkfullir og börn komast ekki inn fyrr en þau eru tveggja og hálfs árs. Grunnskólinn er í tveimur húsum og það þarf stundum að kenna á göngunum.

Það þarf að horfa fram í tímann því deiliskipulag og annað tekur oft langan tíma. Það þarf allavega að fara að huga að því í fjárhagsáætlun. Eins og við segjum í bókuninni þá finnst okkur þessi tími sem við lögðum í þetta hafa verið virtur að vettugi,“ segir leikskólastjórinn.

Staðgengill bæjarstjóra, Jón Þórisson, er erlendis og náðist ekki í hann við vinnslu fréttarinnar. Nökkvi Már Jónsson, sviðsstjóri félagsþjónustu og fræðslusviðs, var sagður í fríi.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×