Lífið

Sprengja í framboði á förðunarfræðingum

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Stelpum flykkjast í förðunarskóla landsins
Stelpum flykkjast í förðunarskóla landsins Vísir/Vilhelm
Förðunarskólar virðast spretta upp hægri vinstri hér á landi og margar ungar stúlkur eru að borga að meðaltali 316.000 kr fyrir grunnnámskeið sem að skilar sér þó ekki í einingum sem hægt er að taka með sér í áframhaldandi nám.

Námskeiðin virðast oft vera svipuð á milli skóla og verðið hátt fyrir stutt námskeið svo Fréttablaðið ákvað að kanna hvað er innifalið og hver er munurinn á grunnnámskeiðum hjá vinsælustu skólunum á höfuðborgarsvæðinu.

Við náðum tali af Mood Make Up School, NN Make Up School, Reykjavík Make Up School og MUD Make Up School. Flestir skólarnir bjóða nemendum sínum upp á byrjunarpakka fyrir námskeiðin sem innihalda förðunarvörur, bursta og snyrtitöskur. Tveir skólar bjóða upp á átta vikna námskeið sem kennt er fjórum sinnum í viku og kosta bæði í kringum 370.000 kr.

Nýr skóli opnar í haust þar sem boðið er upp á að vera í heilsdagsskóla sem stendur í sex vikur. Þar sem mikið er í boði er mikilvægt að tilvonandi nemendur viti muninn á förðunarskólunum sem standa til boða.



Fréttablaðið hafði einnig samband við nokkra álitsgjafa til að fá þeirra skoðun á förðunar- menningunni og skólunum hér á landi. Flestir voru sammála um að of margir skólar væru að kenna förðun hér á landi þar sem lítil eftirspurn er eftir förðunarfræðingum.

Sumum fannst einnig kennslan vera of lítil til þess að fólk gæti útskrifað og titlað sjálft sig sem förðunarfræðinga. Það eru þó vissulega margar stúlkur sem fara í förðunarnám fyrir þær sjálfar en ekki til þess starfa við það í framtíðinni.

Mood Makeup School

  • Grunnnámskeið
  • Átta vikur
  • Fjórum sinnum í viku
  • 369.000 kr
  • Förðunarvörur og burstar innifaldir
  • 14 nemendur í hóp
  • Útskrifast með diplómu í förðunarfræði
Innifalið í verðinu hjá Mood Make Up School er förðunarsett sem inniheldur förðunarvörur, bursta og snyrtitaska frá Mac sem er virði 170.000 kr. Það eru 14 nemendur í hverjum hóp og hægt er að vera í morguntímum eða um kvöldið. Nemendur fara í tvö próf og þeir sem ná þeim útskrifast með diplómu sem förðunarfræðingar. Nemendurnir fá að láta mynda prófafarðanirnar af ljósmyndra og eiga myndirnar. Lagt er áhersla á að kenna fjölbreytta förðun sem getur hentað við ýmis störf, ekki bara að farða sig sjálfar.

Eygló Ólöf Birgisdóttir er ein af kennurunum í skólanum og hún segir að námið sé hentugt fyrir stelpur sem langar að starfa við förðun. „Stelpurnar sem hafa verið að útskrifast hjá okkur hafa verið duglegar að fá vinnu og við reynum að fylgja þeim eftir þegar þær fara út á vinnumarkaðinn. Það er óhætt að segja að um 90% starfsfólks í Mac búðun á Íslandi eru útskrifað frá okkur. Þær fá diplómuna sem er hægt að nota við ýmislegt, meðal annars farið erlendis og sótt um vinnu, en það er ekkert til sem heitir alþjóðleg diplóma eins og sumir skólar hafa verið að auglýsa.“

NN Makeup School

  • Grunnnámskeið
  • Þrjár vikur
  • Fjórum sinnum í viku
  • 215.000 kr
  • Förðunarvörur og burstar innifaldir
  • 4 nemendur í hóp
  • Viðurkenningarskjal
NN Make Up School býður upp á styttri námsskeið en aðrir skólar þar sem farið er yfir grunn taktana þegar það kemur að förðun. Námskeiðið er ekki ætlað þeim sem ætla sér að verða förðunarfræðingar. Kennslan er persónuleg og í lok námskeiðsins fá nemendur viðurkenningarskjal og ljósmynd af förðun eftir ljósmyndara. Það er ekki skylda að þiggja förðunarsettið og þeir sem vilja nota sínar eigin vörur þurfa þá aðeins að borga 170.000 kr.

Kristín Stefánsdóttir á NN Make Up School og hún segir skólann leggja áherslu á persónulegri kennslu og meiri grunn þekkingu. „Við skerum okkur úr með því að bjóða konum og stelpum upp á þessi grunnnámskeið sem vilja bara læra aðeins betur hvernig á að mála. Við erum ekki að ætlast til að þær sem klára hjá okkur fari strax að starfa sem förðunarfræðingar. Það er líka hægt að fá að koma bara í eitt kvöld og fá einkakennslu.“

Reykjavík Makeup School

  • Grunnnámskeið
  • Átta vikur
  • Fjórum sinnum í viku
  • 370.000 kr
  • Förðunarvörur og burstar innifaldir
  • 14 nemendur í hóp
  • Útskrifast með diplómu í förðunarfræði
Í Reykjavík Make Up School byrja allir nemendur á að fá helstu förðunarvörur, bursta, snyrtitösku og svampa frá Make Up Store, Real Techinique og Beauty Blender að andvirði 160.000 kr. Það eru 14 nemendur í hverri kennslustund en það eru tveir hópar í gangi hverju sinni, um morgun og kvöld. RMS sérhæfir sig í „Beauty-förðun“ og þær fá margar stelpur til sín sem að vilja aðallega læra þetta fyrir sjálfar sig.

Sigurlaug Dröfn Bjarnadóttir er ein af eigendum RMS. „Skólarnir hérna eru kannski með svipaðar áherslur en við höfum verið að sérhæfa okkur í þessari „beauty-förðun“ þar sem við fylgjumst með því sem er að gerast úti í heimi. Það er greinilega mikill áhugi fyrir því þar sem við eigum ekki laust fyrr en 2016. Útskrifuðu nemendurnir okkar hafa verið að fá vinnu í Make Up Store og fleiri stöðum ásamt því að taka þátt í verkefnum með okkur. Sumar hafa farið út en diplóman er viðurkennd þannig séð um allan heim þó að hún sé ekki alþjóðleg, enda er ekki hægt að fá alþjóðlega diplómu hér á landi þrátt fyrir að aðrir skólar hafi auglýst það. Það sem við gerum líka er að taka stelpurnar sem eru að byrja hjá okkur í smá viðtal til að kynnast þeim og sýna þeim aðstöðuna, það hafa allir verið rosalega ánægðir með það.“

MUD

  • Grunnnám
  • Sex vikur
  • Fjórum sinnum í viku
  • 990.000 kr
  • Förðunarsett og burstar fylgja
  • Útskrifast með diplómu í förðunarfræði
Alþjóðlegi MUD make up skólinn mun opna hér á landi í haust og nú þegar hafa margir skráð sig. Grunnnámskeiðin verða heilsdagsskóladagar þar sem meðal annars erlendir kennarar mæta til þess að kenna. Skólinn starfar víðsvegar um heiminn og munu nemendur fá tækifæri til þess að fara á milli landa og spreyta sig í verkefnum erlendis. Aðal áhersla skólans er starfsnám og ítarleg kennsla á grunnskrefum í förðun.

Kristín Stefánsdóttir hefur umsjón með skólanum hér á landi en hún starfar einnig hjá NN Make Up School. „Þetta er rosalega spennandi fyrir íslenskar konur. Hér eru komin ný tækifæri með nýjum áherslum. Það mikilvægasta fyrir förðunarfræðinga er reynslan og starfsnám og við leggjum mikla áherslu á það. Innifalið í námskeiðinu er risastór förðunarpakki sem að inniheldur allt sem að byrjendur þurfa.“



 

Fríða María Förðunarmeistari
Álitsgjafar Vísis höfðu sitthvað um málið að segja:

Fríða María Harðardóttir – Förðunarmeistari

„ Þessir skólar eru mest að bjóða upp á mikinn grunn, það er ekki hægt að segja að þetta sé mikið nám. Förðunarskólar hafa alltaf verið mjög vinsælir hér á landi og jafnvel of margir skólar í boði miðað við störf. Það skiptir mestu máli að fá reynslu eftir útskrift. Best er að fara í áframhaldandi nám erlendis til þess að læra almennilega ef að fólki langar til þess að starfa við þetta í sjónvarpi, leikhúsi eða auglýsingum. það er auðvitað er best að byrja hér enda er það lang ódýrast.

Harpa Káradóttir – Förðunarmeistari

„Mín skoðun er sú að það ætti að bjóða upp á fjölbreyttari námskeið, bæði lengri og styttri. Fólk er að fara á námskeiðin á miðjöfnum forsendum, sumir fyrir sjálfa sig og sumir til þess að starfa við þetta og það ætti að vera meira val fyrir þá sem hafa áhuga. Til dæmis þarf meira en 2gja mánaða námskeið til þess að gera þetta að starfsframa og kalla sig förðunarfræðing. En það er auðvitað mjög gaman hvað það hafa margir áhuga á þessu, þessvegna finnst mér að það þurfi að vera meiri fjölbreytni.“





Adda Soffía ritstjóri förðunarsviðs GlamourGlamour/Rakel Tómasdóttir
Adda Soffía Ingvarsdóttir– Beauty Director hjá Glamour

„Skólarnir eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Þeir koma og fara mjög hratt. Ég hef heyrt að kennararnir sjálfir geti verið mjög reynslulitlir en það á auðvitað alls ekki við um alla. Margir skólar virðast elta ákveðin trend í staðin fyrir að kenna förðun sem list. Þetta verður alltaf dýrt nám og þess vegna þarf að nota skynsemina þegar verið er að velja skóla, hvað ertu að fá fyrir peninginn. Eftir að margar stelpur um allan heim hafa verið að stofna sínar eigin instagram og youtube síður virðist hafa orðið einhverskonar sprengja í þessu um allan heim.“

Guðbjörg Huldís Kristinsdóttir - Förðunarmeistari

„Mér finnst skólarnir hérna vera of margir á sama leveli og það er ekki mikið úrval, þessvegna er námið búið að staðna. Ég held að ástæðan fyrir aukum áhuga séu samfélagsmiðlar og blogg. Það eru auðvitað ekki allir sem fara í svona nám að fara að starfa við þetta, það er margir sem vilja bara læra að farða sjálfa sig sem er bara gaman. En þeir sem ætla að starfa við þetta eins og til dæmis fyrir sjónvarp og auglýsingar þurfa að bæta við námið erlendis. Bilið er mjög breytt á milli þeirra sem útskrifast úr grunnnámskeiði og þeirra sem eru förðunarmeistarar. Það halda margir að þetta starf sé glamourus en það þarf að hafa mikið fyrir þessu.“


Tengdar fréttir

Sumar og sól í tónum

Erna Hrund er ein af stofendnum Trendet vefsíðunnar og hér má hlýða á ofursmarta tóna sem hún setti saman

Förðunarstjarna á leið til landsins

Sigurlaug Dröfn Bjarnadóttir, annar eigandi Reykjavík Makeup School, er þekkt fyrir fallega förðun og nýlega sótti hún námskeið hjá frægum föðrunarfræðingi í glamúrförðun, Karen Sarahi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×