Innlent

Sprengingar valda nágrönnum ama

Snærós Sindradóttir skrifar
Eins og sést er sprengt ákaflega nærri íbúabyggð. Íbúar segjast verða fyrir miklum óþægindum vegna þeirra. Fréttablaðið/Andri Marinó
Eins og sést er sprengt ákaflega nærri íbúabyggð. Íbúar segjast verða fyrir miklum óþægindum vegna þeirra. Fréttablaðið/Andri Marinó
Sprengingar eru hafnar í Suðurhlíðum fyrir viðbyggingu við Klettaskóla, sem áður hét Öskjuhlíðarskóli. Sprengingarnar fara fram með svokölluðu takmörkuðu byggingaleyfi.

Íbúar í grennd við skólann eru ósáttir enda kærðu þeir framkvæmdina í lok árs 2013 en hafa engin svör fengið frá Umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar. „Þeir vita að við erum ósátt. 

Hulda Arnljótsdóttir
Við söfnuðum undirskriftum í hverfinu og skiluðum til Dags B. Eggertssonar, þar sem 94 prósent heimila í hverfinu mótmælu þessu. Þeir hlustuðu ekki á það,“ segir Hulda Arnljótsdóttir, íbúi í næsta húsi við framkvæmdirnar. 

Sprengt er fyrir íþróttahúsi, tveimur innisundlaugum og annarri aðstöðu við Klettaskóla. Klettaskóli, sem áður hét Öskjuhlíðarskóli, er grunnskóli fyrir nemendur með fatlanir og sérþarfir.

Nýja deiliskipulagið var kynnt íbúum á fundi miðvikudaginn 19. desember árið 2012. Þeim var gefinn frestur til mánudags, sem var aðfangadagur jóla, að skila athugasemdum.

Vegna athugasemda íbúanna var ákvörðun um deiliskipulagið frestað um nokkra mánuði.

Svo voru haldnir þrír fundir með íbúum, fulltrúum Klettaskóla og fulltrúum borgarinnar um málið. 

„Þeir gera það gjarnan þegar svona sýndarsamráð er í gangi,“ segir Hulda. 

Nýtt deiliskipulag var samþykkt í borgarráði 7. nóvember 2013. Áður hafði deiliskipulagið gert ráð fyrir byggingu sem var tvö þúsund fermetrum minni en sú sem nú á að byggja. 

„Okkur finnst þetta alveg ofboðslega íþyngjandi og skiljum ekki hvaða lögmætu ástæður eru svona rosalega ríkar að fara inn í hverfið með þessum hætti. Þetta er hverfi byggt sirka árið 1985 og þetta er vistvænt hverfi. Það er ákveðinn heildarbragur á hverfinu. Þetta eru þröngar götur með lítil hús og það loftar vel á milli. Þeir eru að raska byggðarmunstrinu þarna alveg gríðarlega.“

Sprungur Skemmdir tóku að myndast í húsi Huldu fyrir tíu dögum. Þær eru víða um húsið. Fréttablaðið/Andri Marinó
Hulda segir að þegar sprengingar hófust hafi reglugerðir um sprengingar verið brotnar. 

„Fyrsta dag sprenginga brutu þeir reglugerð um sprengingar fram og til baka. Í reglugerð segir að í fyrsta lagi eigi svæðið að vera merkt, það eiga að vera skilti um að þetta sé vinnusvæði og að þar sé sprengt. Það voru engin skilti af neinu tagi.“ 

Hulda segir að íbúar hafi ekki vitað að sprengingar myndu byrja 21. júlí síðastliðinn. Í reglugerð standi að það eigi að láta íbúa í nærliggjandi húsum vita en það hafi ekki verið gert. Enginn hafi áttað sig á hvað hljóðmerkið sem kemur fyrir sprengingu þýddi í upphafi. 

„Okkur var sagt að það yrði sprengt tvisvar á dag og að við fengjum að vita klukkan hvað svo við gætum undirbúið okkur. Þeir hafa þverbrotið þetta. Þeir hafa verið að sprengja þrisvar til fjórum sinnum á dag,“ segir Hulda.

Lögreglan hefur verið kölluð til þegar verktakar hafa brotið samkomulag við íbúa. „Það er erfitt fyrir íbúa að eiga við svona ofjarl eins og Reykjavíkurborg. Í þessu máli er borgin málshefjandi að þessu máli, hún sér um hönnunina á mannvirkinu, hún fær til sín framkvæmdaaðila og hún er líka eftirlitsaðili.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×