Erlent

Sprengdu annað hof í Palmyra

Samúel Karl Ólason skrifar
Hof Bel þótti vel varðveitt. Íbúar segja einungis einn vegg standa uppi.
Hof Bel þótti vel varðveitt. Íbúar segja einungis einn vegg standa uppi. Vísir/Getty
Vígamenn samtakanna Íslamskt ríki eru sagðir hafa stórskemmt hof Bel í fornu borginni Palmyra í Sýrlandi. Samtökin hertóku borgina í maí og hafa síðan þá skemmt nokkur forn hof. Einungis nokkrir dagar eru frá því að samtökin sprengdu upp fornt hof Föníka sem tileinkað var Baalshamin, guði storma og rigninga.

Rústirnar eru á fornminjaskrá UNESCO og þykja einhverjar þær merkilegustu í Mið-Austurlöndum. Stofnunin hefur farið fram á að litið verði á eyðileggingu Baalshamin hofsins sem stríðsglæp.

Íbúar nærri rústunum sögðu AP fréttaveitunni frá gríðarstórum sprengingum í gærkvöldi (um 1:45 að staðartíma) og að aðeins einn veggur af Bel hofinu stæði nú uppi. Sömuleiðis hafa samtökin Syrian Observatory for Human Rights, sagt að hofið sé skemmt.

Auk þess að skemma rústirnar hafa ISIS notað fornt hringleikahús sem svið fyrir fjöldaaftöku. Þá var fornleifafræðingur sem hafði umsjón með rústunum um áratugi, nýlega tekinn af lífi.

Samkvæmt UNESCO myndaðist Palmyra í kringum vin í eyðimörkinni, en Rómverjar tóku þar völdin á fyrstu öld. Flestar rústirnar eru frá þeim tíma, en borgin stóð á landamærum menningarheima og var hún byggð í stíl sem blandar saman grísk-rómverskum áhrifum við persnesk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×