Lífið

Spoiler alert = Höskuldar­við­vörun: „Það kom einhver púki í mig“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arnór Hauksson er þýðandi hjá Stöð 2.
Arnór Hauksson er þýðandi hjá Stöð 2. vísir/ernir
„Þegar þetta fræga atriði átti sér stað sá ég umræðu á Twitter þar sem verið var að tengja saman spoiler alert og Höskuld og þaðan kom hugmyndin,“ segir Arnór Hauksson, þýðandi hjá Stöð 2.

Hann þýddi nýjasta þáttinn af Modern Family sem sýndur var á Stöð 2 í gærkvöldi og þá textaði hann orð Phil Dunphy; „En Höskuldarviðvörun, það verður frábært“ þegar Phil segir „But spoiler alert, it´s going to be great.“

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknar, sló í gegn á samfélagsmiðlum í síðustu viku þegar hann hélt að búið væri að segja fjölmiðlamönnum frá niðurstöðu af fundi þingflokks Framsóknarflokksins þegar hann rölti niður stigann og mætti hópi fjölmiðlamanna á Alþingi.

Sjá einnig: Ótrúleg uppákoma: Höskuldur leysti frá skjóðunni á undan áætlun

Höskuldur sagði niðurstöðuna þá að Sigurður Ingi Jóhannson yrði forsætisráðherra og um það væri einhugur í flokknum. Þá sagði hann að Lilja Alfreðsdóttir væri einnig ráðherraefni Framsóknarflokksins. Höskuldur stóð í þeirri meiningu að búið að væri að tilkynna þetta allt saman og töluðu margir tístarar um að hugsanlega hefði hann átt að segja „spoiler alert“ áður en hann byrjaði að tala.

„Nokkrum dögum seinna átti ég að þýða þennan þátt og þá kom þetta orð upp. Það kom bara einhver púki í mig og ég henti í þetta orð. Ég var nú ekkert viss um að þetta fengi að fara í gegn en ég mun hugsanlega nota þetta orð aftur í framtíðinni.“

Hér að neðan má sjá umrætt atriði sem var sýnt á Stöð 2 í gærkvöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×