Innlent

Spjaldtölvur virkja áhuga nemenda

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Nemendur sem nota spjaldtölvur í tímum eru áhugasamari en áður um námið, betur skipulagðir og muna betur það sem þeir læra. Þetta sýnir rannsókn sem gerð var meðal nemenda sem taka þátt í tilraunaverkefni með spjaldtölvur í skóla í Reykjavík.

Í febrúar hófst tilraunaverkefni í Norðlingaskóla þegar farið var að nota spjaldtölvur við kennslu hjá 9 bekkingum. Nýlega voru birtar fyrstu niðurstöður úr mati á því hvernig til hefur tekist og eru niðurstöðurnar nokkuð jákvæðar

Nemendur mæta aftur í skólann eftir sumarfrí og þá heldur tilraunaverkefnið áfram. Rannsókn sýnir að nemendur eru áhugasamari um námið eftir að farið var að nota tölvurnar.

„Þeim finnst þetta miklu betra nám. Miklu skemmtilegra," segir Ragnar Þór Pétursson, kennari.

Þá segjast rúmlega áttatíu prósent nemenda muna betur það sem þeir læra. Tæpur helmingur segist skilja námsefnið betur. Rúmlega 90% nemenda finnst skólavinnan ánægjulegri og tæp 70% segjast vera betur skipulagðir. Ragnar segir spjaldtölvuna hafa breytt náminu mikið en hátt í 80% nemendanna eru líklegri en áður til að skoða verkefni sem þeir hafa gert aftur.

„Vegna þess að verkefnið og allt sem þú þarft til er í tækinu. Þú þarft ert nota margvíslega miðlun. Þú ert að nota myndbönd, tónlist, þú ert að skapa og þú endurnýtir hlutina og þetta er miklu eðlilegra nám," segir Ragnar.

„Þetta er í miklu meiri takt við raunveruleikann sem við búum við í dag. Þetta er ekki lengur bara spurning um það að geta búið til afrit af óskaplega miklum upplýsingum í kolli nemenda heldur að búa til virka þátttakendur í samfélagi þar sem upplýsingar eru aðgengilegar og miklu aðgengilegri en nokkru sinni fyrr."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×