Tónlist

Spilar með gítarleikara Genesis

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Gulli Briem og Steve Hackett koma fram með hljómsveitinni Djabe í Ungverjalandi.
Gulli Briem og Steve Hackett koma fram með hljómsveitinni Djabe í Ungverjalandi. mynd/einkasafn
„Hann er frábær tónlistarmaður spilar bara eins og hann spilaði í gamla daga, ég var og er mikill Genesis-aðdáandi, sérstaklega þegar hann og Peter Gabriel voru í bandinu,“ segir Mezzoforte-trommuleikarinn Gunnlaugur Briem, en hann og upprunalegi gítarleikari Genesis, Steve Hackett, stíga saman á svið á þrennum tónleikum í Ungverjalandi í júlí ásamt heimstónlistar- og djasshljómsveitinni Djabe.

Gulli hefur áður leikið með hljómsveitinni Djabe og með Hackett, árið 2012 en þeir koma báðir fram sem sérstakir gestir á tónleikunum.

Gulli segir að það sé sérlega ánægjulegt að spila með Hackett, ekki síst þar sem nokkur gömul og góð Genesis-lög verða tekin í upprunalegum útsetningum.

„Gítarleikur Hacketts sé mjög sérstakur og lýrískur. Fyrir utan það þá ólst ég upp við þessa tónlist og spilaði á vínyl í klessu þegar ég var unglingur. Hann var mjög mikilvægur í Genesis,“ segir Gulli. Hann býr að mestu í Búdapest og gerir út þaðan.

Tónleikarnir verða í Búdapest, Hévíz og Debrecen 18., 19. og 20. júlí.

„Þetta eru útitónleikar og veðrið er frábært í Ungverjalandi þannig að það mun ekki væsa um okkur í blíðunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×