Innlent

Spilafíkill dró sér 26 milljónir hjá Sveitarfélagi Skagafjarðar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Sauðárkróki.
Frá Sauðárkróki. Vísir/Pjetur
Kona á fimmtugsaldri var á dögunum dæmd í fimmtán mánaða fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands vestra og til þess að endurgreiða rúmlega 26 milljónir króna sem hún dró sér í starfi sem aðalbókari og síðar fjármálafulltrúi hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Málið var sótt af ríkissaksóknara en konan, sem er haldin spilafíkn, játaði brot sitt. Tólf af mánuðunum fimmtán eru skilorðsbundnir.

Brotin áttu sér stað á tímabilinu október 2009 til ársloka 2013. Milifærði hún tæplega 25 milljónir króna í 56 millifærslum af reikningum í eigu Sveitarfélagsins Skagafjarðar yfir á eigin reikninga. Hæsta staka fæslan var upp á rúmar sjö milljónir króna. Þá millifærði hún einnig rúma milljón króna í nítján færslum af reikningi Upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra inn á eigin bankareikning og tók sömuleiðis 200 þúsund krónur af reikningi Byggðasafns Skagfirðinga.

Konan hefur ekki áður brotið lög og virti dómurinn það til refsilækkunar. Fram kemur að konan sé haldin spilafíkn sem hún hefur leitað sér aðstoðar við. Gögn liggja fyrir um það og sömuleiðis að hún hefði glímt við áralangt þunglyndi.

Rúmlega þrjár milljónir króna voru gerðar upptækar en konan þarf að endurgreiða milljónirnar 26. Dóminn í heild sinni má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×