Lífið

Spila raunveruleg símtöl þar sem kallað er eftir hjálp

Björgunarsveitarmaður sem slasast alvarlega á fjöllum, ung kona sem eignast barn ein á baðherbergisgólfi, sjúkraflutningur í einu versta óveðri sem gengið hefur yfir í áratug, ökumaður sem hafnar á hvolfi í á eftir bílveltu og fjölskyldufaðir sem háls- og hryggbrotnar í sumarbústað.

Þessi mál eru meðal umfjöllunarefnis í nýrri þáttaröð af Neyðarlínunni. Fyrsti þátturinn verður sýndur næsta sunnudag klukkan 20.

Í þessum vönduðu þáttum fylgir sjónvarpskonan Sigrún Ósk Kristjánsdóttir eftir sögum fólks sem hringt hefur í Neyðarlínuna á ögurstundu.

Raunveruleg símtöl viðmælenda þar sem kallað er eftir hjálp eru spiluð og rætt við sjúkraflutningamenn, lækna, björgunarsveitarmenn, neyðarverði og aðstandendur.

Fyrri þáttaröð Neyðarlínunnar var sýnd haustið 2012 og hlaut tilnefningu til Edduverðlauna. Þættirnir verða á dagskrá Stöðvar 2 á sunnudagskvöldum.


Tengdar fréttir

11 ára stúlka bjargaði móður sinni

„Hún bjargaði lífi mínu,“ segir María Bah Runólfsdóttir í Grundarfirði en 11 ára dóttir hennar, Amelía Rún, hringdi í Neyðarlínuna þegar María hneig niður á heimili þeirra.

Byggir upp líf sitt eftir skelfilega lífsreynslu

"Við höfum fengið mjög góð viðbrögð við þættinum og áhorfið hefur verið eftir því,“ segir Sigrún Ósk Kristjánsdóttir stjórnandi Neyðarlínunnar á Stöð 2 en þriðji þátturinn fer í loftið í kvöld. Sá fyrsti fjallaði um unga konu sem fór í hjartastopp og annar um barnsfæðingu í bíl, en þátturinn í kvöld er um Júlíus Má Baldursson bónda á Tjörn á Vatnsnesi sem missti allt sitt í bruna fyrir tveimur árum. "Það muna mjög margir eftir þessum eldsvoða enda var hann töluvert í fréttum,“ segir Sigrún Ósk. "Þetta er ótrúleg saga manns sem hefur unnið þrekvirki í að byggja sitt upp að nýju eftir skelfilega lífsreynslu.“ Þátturinn um Júlíus hest klukkan 20.10 í kvöld.

Ofkældist á Esjunni

"Ég vissi að þyrla væri það eina sem gæti bjargað mér,“ segir íþróttakennarinn Bjarni Stefán Konráðsson sem örmagnaðist á fjöllum í maímánuði á síðasta ári og var mjög hætt kominn vegna ofkælingar. Hann náði að hringja í Neyðarlínuna en gat takmarkaðar upplýsingar gefið um staðsetningu sína.

Eignuðust barn í bíl

„Rembingurinn kom bara í bílnum og svo fann ég þegar belgurinn sprakk og vatnið fór,“ segir Bergný Ösp Sigurðardóttir sem eignaðist barn í bíl í miðju Oddsskarði í sumar. Barnsfaðir hennar, Guðni Tómasson, þurfti að taka á móti barninu en starfsmaður Neyðarlínunnar leiðbeindi honum í gegnum síma. Barnið kom í heiminn um 10 mínútum eftir að þau hringdu í 112.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×