Tónlist

Spila með grímur og láta tónlistina tala

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hljómsveitin Vaginaboys vonast til að það dragi úr neikvæðri merkingu orðisins vaginaboy með nafni hljómsveitarinnar.
Hljómsveitin Vaginaboys vonast til að það dragi úr neikvæðri merkingu orðisins vaginaboy með nafni hljómsveitarinnar. vísir/Stefán
Hljómsveitin Vaginaboys spilaði á sínum fyrstu tónleikum þann 26. maí þegar þeir komu fram með Sin Fang, rúmu ári eftir að þeirra fyrsta lag, Elskan af því bara, kom út.

Á huldu er hverjir meðlimir hljómsveitarinnar eru, á tónleikum spila þeir með grímur, syngja í gegnum talgervil og á Facebook-síðunni er engin grein gerð fyrir nöfnum meðlima en þeir spila draumkennda raftónlist.

Huldumenn á bak við tjöldin

„Við viljum bara láta tónlistina tala fyrir það sem við erum að gera. Síðan eru huldumenn á bak við tjöldin,“ segir söngvari sveitarinnar leyndardómsfullur um ástæður grímanna en á sviðinu eru þeir jafnan tveir og þegar hann er spurður að því hvort að í hópi fyrrnefndra huldumanna leynist einhverjir þekktir tónlistarmenn er svarið stutt og laggott: „Ég ætla ekkert að tjá mig um það,“ segir hann glaður í bragði og bætir við að dularfullt sé sexý.

Vaginaboys hafa gert tónlist saman í rúm tvö ár en verið vinir talsvert lengur. „Við erum æskuvinir. Ætli þetta hafi ekki bara byrjað í grunnskóla. Við höfum mikinn áhuga á tónlist og lifum fyrir tónlist.“

Þeirra fyrsta lag, Elskan mín af því bara, var gefið út þann 31. ágúst á síðasta ári. Það var þó ekki fyrr en fyrir nokkrum mánuðum síðan að lagið sprakk út og öðlaðist talsverðar vinsældir á samfélagsmiðlum og þakkar hinn grímuklæddi og nafnlausi söngvari nokkrum tónlistarmönnum fyrir að hafa hjálpað til við að koma því á kortið. „Emmsjé Gauti, Sin Fang og Gísli Pálmi áttu sinn þátt í því,“ segir hann.

Nóg í pokahorninu

Lagið Í svefn kom út á dögunum í tengslum við Druslugönguna og eru hljómsveitarmeðlimir strax farnir að huga að útgáfu næsta lags, Ekki nóg. Við það mun einnig koma út myndband sem frumsýnt verður á Vísi og verður útgáfudagur tilkynntur síðar. „Róm var ekki byggð á hverjum degi,“ segir hann léttur í lund og segir þá félaga eiga nóg af efni í pokahorninu og stefnan sett á að gera eitt þúsund góð lög.

„Svo kemur bara út geisladiskur, vínill og kassetta í framtíðinni.“ Þegar hann er spurður að því hvort einhver áætlaður útgáfudagur sé er markmiðið skýrt: „Ætli við verðum ekki bara að stefna á að þetta verði jólaplatan í ár.“

Vilja breyta merkingunni

Orðið vaginaboy, sem hljómsveitin dregur nafn sitt af, er notað á neikvæðan hátt um stráka sem þykja ekki nógu harðir af sér eða fara að einhverju leyti gegn ríkjandi karlmennskuhugmyndum.

„Þetta er svona feminísk pæling. Það er svo sorglegt að það sé verið að nota svona fallegt orð, vaginaboy, í niðrandi tilgangi,“ segir hann og bætir við: „Við vildum nota þetta yfir okkur og ef við verðum kúl í framtíðinni verður kannski kúl að vera kallaður vaginaboy.“

Það er nóg um að vera hjá hljómsveitinni og mun hún meðal annars spila á Innipúkanum í kvöld klukkan 21.00 á skemmtistaðnum Húrra.

„Við erum líka að byrja með dj-sett þannig að það verður þægilegt að fá okkur í veislur, brúðkaup og jarðarfarir.“

Fá klapp á bakið

Grímurnar sem hljómsveitarmeðlimirnir tveir bera á tónleikum vekja forvitni, ætíð er um sömu grímur að ræða en söngvarinn segir nýjungar væntanlegar.

„Þetta eru alltaf sömu grímurnar núna, en það eru einhverjar týpur í vinnslu veit ég,“ og segir hann þá jafnframt ekki gera mikið úr því að halda dulargerfinu uppi fyrir framan vini og fjölskyldu, enda noti þeir grímurnar aðallega þegar þeir eru að spila en ekki í daglegu lífi.

„Það fá allir að vita það sem vilja vita það í kringum okkur. Og þeir sem nenna að standa í að finna út hverjir við erum fá bara klapp á bakið.“

Vaginaboys eru virkir á öllum helstu samfélagsmiðlum. Hér eru þeir á Facebook, Instagram, Tumblr, Myspace, Soundcloud, Twitter og halda einnig úti vefsíðunni Vaginaboys.com.

Áhugasamir geta einnig fylgst með þeim á Snapchat þar sem notendanafnið þeirra er vaginaboys.

Hér má hlusta á lagið Elskan af því bara:







Fleiri fréttir

Sjá meira


×