Handbolti

Spenntur fyrir áskoruninni að byrja á nýjum stað

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Brynjar er spenntur fyrir nýjum verkefnum hjá FH.
Brynjar er spenntur fyrir nýjum verkefnum hjá FH. Mynd/FH
Brynjar Darri Baldursson gekk í gær til liðs við FH á eins árs lánssamningi. Brynjar, sem er 21 árs gamall markvörður, mun því berjast við Ágúst Elí Björgvinsson um sæti í liði FH á næsta tímabili.

Brynjar Darri, sem er uppalinn í Stjörnunni, lék alla leiki liðsins er Stjarnan tryggði sér sæti í Olís-deildinni í vor en vildi fá nýja áskorun.

„Það er alls ekki að ég sé að fara í illu, ég var búinn að vera að hugsa um að skipta um umhverfi og ég tel að ég sé að taka gott skref. Þetta er ekki gert í neinu offorsi,“ sagði Brynjar við Fréttablaðið í gær en hann er spenntur fyrir því að byrja hjá FH.

„Það er heillandi að berjast við Ágúst um sæti í liðinu og öll umgjörðin í kringum þetta heillar mjög. Ég vonast til þess að geta tekið næsta skref hjá FH, það er góður grundvöllur og góð markmannsþjálfun hjá félaginu og ég þekki strákana vel,“ sagði Brynjar en metnaður félagsins átti sinn hlut.

„Þetta verður kannski meira krefjandi. Ég hafði það kannski of náðugt hjá Stjörnunni og það verður skemmtileg áskorun að byrja á nýjum stað,“ sagði Brynjar Darri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×