Innlent

Spennistöð við róló vekur ugg

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Spennustöðin við leikvöllinn. Íbúar segja fátt sannað um áhrif segulsviðs en að börn og íbúar eigi að njóta vafans og því skuli fjarlægja spennustöðina.
Spennustöðin við leikvöllinn. Íbúar segja fátt sannað um áhrif segulsviðs en að börn og íbúar eigi að njóta vafans og því skuli fjarlægja spennustöðina. mynd/Þorleifur Geirsson
Íbúar í nágrenni við leiksvæðið Bjössaróló í Borgarnesi eru uggandi yfir spennistöð sem stendur þar við. Auk þess að standa við leikvöllinn er hún skammt frá tveimur íbúðarhúsum, fimm metrum frá öðru og tíu metrum frá hinu.

Bent er á í bréfi, sem íbúarnir sendu sveitarstjórn Borgarbyggðar í þessum mánuði, að mikil rafsegulsmengun sé frá háspennustrengjum en einn slíkur liggur frá spennistöðinni um leiksvæðið. Enn fremur segir í erindinu að erfitt sé að sanna nokkuð í þessum efnum en bent hafi verið á tengsl alvarlegra sjúkdóma og nálægðar við spennistöð í einu hverfi bæjarins.

Björn Bjarki Þorsteinsson, forseti sveitarstjórnar, segir að erindinu sé tekið alvarlega og leitað hafi verið eftir upplýsingum frá RARIK.

Í skýrslu frá Geislavörnum ríkisins og Brunamálastofnun segir að rannsóknir hafi farið fram víða um heim á hugsanlegum skaðlegum langtímaáhrifum segulsviðs. Þar hefur athyglin einkum beinst að hugsanlegum tengslum slíks segulsviðs og hvítblæðis í börnum. Í samantekt Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar frá 2007 segir hins vegar að fyrirliggjandi vísindaleg gögn séu ekki nægilega sterk til að sýna fram á orsakasamhengi þar á milli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×