Lífið

Spennandi nýjung í dansflóruna

BRYN DanceCenter er fyrir nemendur sem vilja fá góðan grunn og kynnast jafnframt öllu því nýjasta í dansheiminum.
BRYN DanceCenter er fyrir nemendur sem vilja fá góðan grunn og kynnast jafnframt öllu því nýjasta í dansheiminum. MYND/ANDRI MARINO
BRYN Listdansskóli og DanceCenter Reykjavík hefja árið á splunkunýju samstarfi. Boðið verður upp á alþjóðlega viðurkennt dansnám í klassískum ballett frá Royal Academy of Dance í Bretlandi, ásamt djass- og nútímadansi. Sömuleiðis allt það nýjasta í hiphoppi, djassfönki og reggaetone. Dómarar og danshöfundar úr virtustu dansþáttum heims verða gestakennarar en þeir eiga það sameiginlegt að hafa unnið fyrir skærustu stjörnur tónlistargeirans.

Þær Nanna Ósk Jónsdóttir, framkvæmdastjóri DanceCenter, og Bryndís Einarsdóttir, skólastjóri BRYN Ballett akademíunnar, leiða saman styrkleika sína úr ólíkum áttum undir heitinu BRYN DanceCenter. Starfsemin hefst 12. janúar. Nemendur eru á aldrinum þriggja til 20 plús. Kennslan mun fara fram á hinum ýmsu stöðum í Garðabæ, Kópavogi og Reykjavík og verður boðið upp á allt það besta í dansheiminum í dag.

Góður grunnur og fjölbreyttir dansstílar

„Við Bryndís erum með óbilandi ástríðu fyrir dansi og öllu sem viðkemur honum og þetta er að okkar mati spennandi nýjung í dansflóruna hér á landi. Hjá okkur verður hægt að læra grunntækni ásamt fjölbreyttum dansstílum,“ segir Nanna Ósk. Bryndís telur að samstarfið eigi eftir að skerpa styrkleika skólanna, bæta úrvalið og ýta enn frekar undir metnað og dansgleði nemenda.

„Þegar byrjað er að innleiða grunntæknina hjá nemendum, sést árangurinn um leið. Til þess að verða atvinnudansari þarf að vera með sterka undirstöðu í klassískum ballett. Hún eykur jafnframt hæfni þeirra sem vilja ná langt í öðrum danstegundum eins og nútímadansi, djassdansi, djassfönki og hipphoppi. Ef nemendur vilja öðlast góðan og fjölbreyttan grunn og kynnast jafnframt öllu því nýjasta úr báðum dansheimum er BRYN DanceCenter staðurinn,“ segir Bryndís.

„Í gegnum árin hefur það sýnt sig að dansari sem á auðvelt með að skipta á milli dansstíla, fær fleiri verkefni í afþreyingargeiranum erlendis,” segir Nanna. „Stærstu nöfnin sem hafa unnið virtustu dansþættina í heiminum, eins og So you think you can dance?, hafa oftar en ekki slíkan bakgrunn. Okkar markmið er að bjóða upp á það allra besta fyrir nemendur sem vilja ná langt.“

Hafa breiðan bakgrunn

Báðar hafa þær Nanna og Bryndís breiðan dansbakgrunn.

Bryndís stofnaði og rak eigin listdansskóla, BRYN Ballet Academy, í Lundúnum þegar hún var búsett þar í nokkur ár. Eftir að hún flutti heim stofnaði hún BRYN Ballett akademíuna í Reykjanesbæ. Þar er áfram kennt eftir aðalnámskrá mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir listdansskóla á grunn- og framhaldsskólastigi.

Bryndís byrjaði að kenna ung að aldri og hefur kennt dans víða um heim. Hún er sérhæfð í klassískum ballett, nútímadansi og mörgum öðrum dansstílum. Hún er skráður kennari hjá Royal Academy of Dance og meðlimur International Dance Teachers Association og Félagi íslenskra listdansara. Fyrir utan að kenna hefur Bryndís heilmikla reynslu af sýningum, dansi og leiklist. Hún útskrifaðist frá California Institute of the Arts með BFA-gráðu og í klassískum ballettkennslufræðum frá Royal Academy of Dance í Bretlandi. Einnig er hún útskrifuð með M.Art.ed.-gráðu frá listkennsludeild Listaháskóla Íslands með áherslu á dans.

Bryndís hefur unnið við leikhús, dansleikhús, kvikmyndir, auglýsingar, tónlistarmyndbönd og svo mætti lengi telja. Þá hefur hún bæði leikstýrt og samið fjölda danssýninga og starfað sem dansari í óteljandi danssýningum og verkefnum. Hún hefur þjálfað fjölmarga kennara víðsvegar um heiminn í ýmsum dansstílum og kennt nemendum á öllum aldri.

Nanna Ósk hefur unnið mikið frumkvöðlastarf í danskennslu á Íslandi og sett mark sitt á dansmenningu landsins. Hún hefur til fjölda ára flutt inn virtustu danshöfundana frá Bandaríkjunum, sem hafa unnið fyrir skærustu stjörnurnar í tónlistarheiminum og fengið þá til að kenna íslenskum dönsurum. Þá hefur hún fengið til liðs við sig fjölmarga dómara og danshöfunda ásamt vinningshöfum So you think you can dance? til að kenna við skólann og koma fram á sýningum.

Nanna byrjaði ung að aldri að kenna og hefur landað fjölmörgum Íslandsmeistaratitlum, líkt og Bryndís. Hún hefur ástríðu fyrir nýjungum í dansi og hefur lært fjölbreytta dansstíla. Má þar nefna ballett, djassdans, nútímadans, hipphopp, krump, afró, reggaetone, stepp, samkvæmisdans og flamenco.

Nanna setti á laggirnar og rak dansdeildina í World Class í Laugum við góðan orðstír á árunum 2004-2007 en stofnaði síðan DanceCenter Reykjavík. Hún er með M.Sc. í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum og býr yfir 15 ára reynslu úr atvinnulífinu. Hún hefur meðfram eigin rekstri unnið fyrir stærstu fyrirtæki landsins við markaðssetningu, verkefnastjórnun, fjölmiðlun, almannatengsl og viðburðastjórnun.

Fyrir utan að kenna hefur Nanna jafnframt heilmikla reynslu af sýningum og leiklist. Þá hefur hún bæði samið fjölda danssýninga og starfað sem dansari í óteljandi danssýningum og verkefnum. Nanna hefur þjálfað fjölmarga kennara og kennt nemendum á öllum aldri.

Vorönnin hefst 12. janúar

Vorönn BRYN DanceCenter hefst mánudaginn 12. janúar.

Frekari upplýsingar er að finna á www.bryndancecenter.is.

Einnig er hægt að senda tölvupóst á info@bryndancecenter.is eða hringja í síma: 777 3658 eða 772 1702.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×