Íslenski boltinn

Spennandi kostir í boði á Íslandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Pálmi Rafn skoðar nú sína möguleika. Hann er hér í landsleik.
Pálmi Rafn skoðar nú sína möguleika. Hann er hér í landsleik. fréttablaðið/afp
„Við hjónin ætluðum að eiga náðuga viku í borginni en það hefur ekki alveg farið þannig,“ segir Húsvíkingurinn Pálmi Rafn Pálmason en hann hefur eytt lunganum úr vikunni í að ræða við Pepsi-deildarlið sem vilja ólm semja við leikmanninn.

Hann er búinn að ræða við Val, KR og FH og KA-menn hafa einnig áhuga á því að semja. Pálmi hefur því ýmsa valkosti hér heima.

„Ég er á leið norður í sæluna núna og mun skoða mín mál þar í rólegheitunum,“ segir Pálmi Rafn en hann hefur heldur ekki lokað hurðinni á að spila áfram erlendis en hann hefur verið í herbúðum Lilleström síðustu þrjú ár. Félagið vill halda honum en virðist ekki hafa bolmagn til þess.

„Ég hef fengið tilboð úti en þau hafa ekki verið spennandi. Ég er samt enn að gæla við að það komi upp eitthvað spennandi. Ég tel mig enn vera það góðan að ég geti fengið eitthvað spennandi úti. Það hefur ekki enn komið. Það er ekkert lífsspursmál fyrir mig að spila erlendis. Þá væri ég búinn að skrifa undir einhvers staðar.“

Þó svo það komi ekkert spennandi að utan á næstunni þá má telja líklegt að ef Pálmi semur við íslenskt lið verði það með þeim möguleika að hann geti farið utan í janúar komi tilboð sem hann vilji taka. Leikmaðurinn vildi ekkert tjá sig um það.

„Þetta eru spennandi kostir hér heima. Flott lið og við fjölskyldan tökum svo ákvörðun um hvað skal gera.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×