Innlent

Spennandi kosninganótt framundan

Ásgeir Erlendsson skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt nýjustu könnunum á fylgi flokkanna. Prófessor í stjórnmálafræði segir allt stefna í spennandi kosninganótt og að mikil óvissa ríki um hvort stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir nái meirihluta á þingi.

Töluverð spenna er í kortunum ef marka má fjórar nýjustu kannanir á fylgi flokkanna sem gerðar hafa verið af 365 miðlum, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, MMR og Gallup.

Sjálfstæðisflokkurinn stærstur

Í könnununum fjórum mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærsti stjórnmálaflokkur landsins en fylgi hans er á bilinu 22,5% - 27,3%, en rúmlega fimm prósentustiga munur er á fylgi flokksins í könnun Félagsvísindastofnunar annars vegar og 365 miðla hins vegar.

Píratar eru næst stærsti flokkurinn ef marka má kannanirnar en fylgi þeirra mælist 17,9% - 21,2%.

Fylgi Vinstri grænna er um og yfir 16,5% í könnununum fjórum. Framsókn mælist á bilinu 9,3% -11% og Viðreisn er með 8,9% til 11,4%.

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessorvísir/hanna
Óvissa hvort stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir nái meirihluta

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði á von á spennandi kosninganótt og segir töluverða óvissa ríkja hvort stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir sem fundað hafa um mögulegt samstarf nái meirihluta. Aðeins í einni af könnununum fjórum ná þeir tæpum meirihluta.

„Það er heilmikil spenna í þessu þó að kannanirnar gefi nokkra mynd af stöðunni. Það verður líka fróðlegt að sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn verður stærri en Píratar og hversu mikill munur verður á fylgi þessara flokka.“ Segir Baldur.

Hann segir jafnframt athyglisvert að sjá hvort Samfylking og Björt framtíð komi til með að eiga í erfiðleikum með að ná inn þingmönnum en fylgi þeirra beggja er um og yfir 6%. 

Gæti orðið snúið

Baldur segir stjórnarmyndunarviðræður gætu því hæglega orðið snúnar eftir kosningar ef eitthvað er að marka kannanirnar fjórar.

„Fyrst er að sjá hvort að stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir nái meirihluta. Nái þeir ekki meirihluta þá má telja líklegt að þeir leiti til Viðreisnar. Þá munum við sjá fram á að reynt verður að mynda fimm flokka ríkisstjórn sem getur verið nokkuð flókið. Ef það tekst ekki er í raun allt uppi á borðum og opnast pandórubox.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×