Innlent

Spenna, spilling og ofbeldi í aðdraganda kosninga

Heimir Már Pétursson skrifar
Þingkosningar fara fram í Úkraínu í morgun.
Þingkosningar fara fram í Úkraínu í morgun. Vísir/AFP
Töluvert ofbeldi hefur verið fyrir þingkosningar sem fram fara í Úkraínu á morgun. Úrslit kosninganna munu hvorki draga úr spennu í austurhluta landsins þar sem fólk getur almennt ekki kosið né þeirri spennu sem ríkir í samskiptum Úkraínu við umheiminn, að mati Karls Garðarsson alþingismanns sem er við kosningaeftirlit í landinu.

Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins og Ögmundur Jónasson þingmaður Vinstri grænna eru báðir komnir til Úkraínu þar sem þeir munu sinna kosningaeftirliti í þingkosningunum á morgun. Petro porosjenkó forseti rauf þing í sumar og boðaði til þingkosninga til að freista þess að fá þing sem auðveldar honum að koma frumvörpum í gegn. En Karl segir að búist sé við að flokkur hans fái um 30 prósent atkvæða.

Já, það er mikil spenna hér í Úkraínu. Það er eiginlega tvennt sem er aðalumræðuefnið í þessari kosningabaráttu í fyrsta lagi eru það átökin í austurhluta landsins,“ segir Karl.

Sú umræða hafi yfirgnæft umræðuna en einnig sé mikið rætt um þá landlægu spillingu sem er í landinu. Flokkur forsetans sé stærstur en 28 flokkar bjóða fram í kosningunum á morgun. Talið er að flokkur forsetans muni fá um eða yfir 30 prósent atkvæða.

„Síðan eru ansi margir flokkar sem koma þar á eftir með fylgi á bilinu fimm til tíu prósent. Þannig að það er ekkert afgerandi hvað þar varðar hverjir koma þar á eftir,“ segir Karl.

Það geti því orðið flókið að mynda stjórn að loknum kosningum. En átakalínurnar eru milli þeirra sem vilja sterk tengsl við Rússland annars vegar og Evrópu hins vegar.

„Það er talið að flokkur Porosjenkos muni reyna að mynda stjórn með tveimur eða þremur öðrum flokkum. Þjóðernisflokkum sem eru mjög sterkir hér. Þannig að flokkar sem vilja algeran aðskilnað frá öllu sem heitir austrið og vilja tengjast Evrópusambandinu eins mikið og hægt er,“ segir Karl.

Líklega verði samstarf af þessu tagi niðurstaðan eftir kosningar. Hins vegar segir Karl að það skekki mjög kosningarnar að sjö til átta milljónir íbúa í austurhluta landsins þar sem átök hafa verið mikil undanfarna mánuði geti meira og minna ekki kosið. Það ásamt öðru leiði til þess að líkur séu á að Kommúnistaflokkur landsins þurkkist út af þingi.

Í kosningunum er annars vegar kosið milli flokka í hlutfallskosningum og hins vegar er helmingur þingmanna kosinn í einmenningskjördæmum.

„Og það hefur verið talsvert mikil spilling í kring um það. Vegna þess að það hefur komið í ljós að ansi margir fjársterkir einstaklingar sem eru að bjóða sig fram hafa verið að kaupa atkvæði. Þar að auki hefur verið talsvert mikið um ofbeldi í kosningabaráttunni. Það hefur mikið verið ráðist á frambjóðendur. Þannig að það hefur verið mjög mikið kvartað undan því hvernig kosningabaráttan hefur gengið hvað þetta varðar,“ segir Karl Garðarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×