Handbolti

Spellerberg: Sóknarleikurinn brást okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Spánverjar fögnuðu vel og innilega í leikslok.
Spánverjar fögnuðu vel og innilega í leikslok. Vísir/Eva Björk
Bo Spellerberg, leikmaður danska landsliðsins, var vitanlega sársvekktur í leikslok eftir tapið gegn Spánverjum í 8-liða úrslitum HM í handbolta í kvöld.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Ég þarf að skoða leikinn aftur því mér fannst margt sem við gerðum vel. Við gerðum hins vegar margt sem við hefðum ekki átt að gera,“ sagði hann í samtali við Vísi í kvöld.

„Við gáfum þeim nokkur auðveld mörk í leiknum á meðan að við þurftum að berjast fyrir hverju einasta marki sem við skoruðum.“

Hann hrósaði spænska liðinu fyrir frammistöðuna sína og sagði að bæði lið hefðu spilað öflugan varnarleik. „En við náðum okkur ekki á strik í sókninni í dag,“ bætti línumaðurinn sterki við.

„Það er enginn vafi á því að danska þjóðin varð fyrir vonbrigðum í kvöld. En fólkið heima þarf að gera sér grein fyrir því að til þess að fara alla leið í þessu móti þarf að vinna mjög sterk lið.“

„Spánn og Frakkland. Þetta eru tvö af bestu liðum heims. Við áttum mjög erfiða leið að úrslitaleiknum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×