Innlent

Sparkaði ítrekað í andlit og höfuð barnsmóður sinnar

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Þrítugur maður er sakaður um að hafa dregið barnsmóður sína út úr bifreið hennar og ráðist á hana með ofbeldi.
Þrítugur maður er sakaður um að hafa dregið barnsmóður sína út úr bifreið hennar og ráðist á hana með ofbeldi. Vísir/Pjetur
Aðalmeðferð í máli þrítugs manns sem ákærður er fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás verður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Manninum er gefið að sök að hafa ráðist á barnsmóður sína og fyrirverandi sambýliskonu með ofbeldi þar sem hún sat í ökumannssæti bíls síns við Perluna í Öskjuhlíð í maí í fyrra. Maðurinn á að hafa brotið framrúðu bifreiðarinnar og slegið konuna ítrekað í andlitið, opnað dyrnar og dregið hana út úr bílnum. Síðan er hann sagður hafa ýtt konunni upp að bílnum og slegið hana ítrekað í andlit og höfuð og hrint henni í jörðina. Þar sem konan lá í jörðinni er maðurinn sagður hafa sparkað ítrekað í höfuð hennar og líkama.

Konan fékk mar og blæðingu við hvirfil og aftan á hnakka, sprungur á efri og neðri vör, bólgur og eymsli yfir nef sem og mar og eymsli víðs vegar um líkamann.

Þess er krafist að maðurinn borgi konunni 800 þúsund krónur í skaðabætur sem og að hann verði dæmdur til refsingar og greiði sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×