Viðskipti innlent

Sparar tíma við uppfærslu heimasíðna

Frumkvöðull Sesselja Vilhjálmsdóttir er vön frumkvöðlaumhverfinu. fréttablaðið/Ernir
Frumkvöðull Sesselja Vilhjálmsdóttir er vön frumkvöðlaumhverfinu. fréttablaðið/Ernir
Tagplay er nýtt sprotafyrirtæki sem hleypir í dag af stokkunum nýrri veflausn sem er sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. „Veflausnin hjálpar fyrirtækjum að halda vefsíðum og öppum lifandi og uppfærðum með hjálp samfélagsmiðla,“ segir Sesselja Vilhjálmsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Tagplay. Sesselja hefur starfað í hugbúnaðargerð síðustu ár og er vel kunn frumkvöðlaumhverfinu. Hún gaf meðal annars út heimildarmyndina The Startup Kids sem fjallar um veffrumkvöðla í Bandaríkjunum og Evrópu. Hugmyndinn að veflausn Tagplay kviknaði þegar Sesselja kom að vefráðgjöf fyrir auglýsingastofur. „Fyrirtæki voru endurtekið að eyða háum upphæðum í að útbúa flottar vefsíður sem stóðu svo hálfóuppfærðar vikum saman. Einkum var það vegna þess hve flókið og tímafrekt er að uppfæra vefsíður,“ segir hún. Sesselja segir tilboð, opnunartíma og jafnvel símanúmer enda á því að verða úrelt og missa fyrirtæki því af mögulegum viðskiptum. Fyrsta vara Tagplay er fyrir vefforritara til að koma upp heimasíðum sem stjórnað er af samfélagsmiðlum; Facebook, Instagram, Twitter og tölvupósti. „Tagplay sparar forriturum tíma við að koma upp heimasíðu og að þurfa að eyða tíma í að kenna viðskiptavinum á flókin kerfi til að uppfæra heimasíðuna.“ Þróun á hugbúnaði Tagplay hefur staðið yfir undanfarna mánuði í samvinnu við viðskiptavini Tagplay og helstu vef- og auglýsingastofur á Íslandi. Fyrirtækið hefur fram að þessu verið fjármagnað af eigin fé og sölu vörunnar en Sesselja stendur nú í lokaferli við að fjármagna félagið með aðkomu bandarískra og íslenskra fjárfesta. Fjárfestingunni verður að hennar sögn varið í að stækka teymið enn frekar og markaðssetningu erlendis. Sesselja mun kynna Tagplay á Mannamótum Ímark, markaðsfólks á Íslandi, á Kexi hosteli í dag klukkan 17.00.




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×