Erlent

Spánarkonungur veitir Rajoy umboð til stjórnarmyndunar

Atli Ísleifsson skrifar
Mariano Rajoy eftir fund sinn með Spánarkonungi í Madríd í dag.
Mariano Rajoy eftir fund sinn með Spánarkonungi í Madríd í dag. Vísir/AFP
Mariano Rajoy, starfandi forsætisráðherra Spánar, segir að Filippus Spánarkonungur hafi beðið hann um að mynda ríkisstjórn í landinu.

AFP greinir frá þessu og segist Rajoy í samtali við fréttamenn hafa samþykkt beiðni konungsins.

Stjórnarkreppa hefur ríkt á Spáni allt frá því að þingkosningar voru þar haldnar í desember 2015. Kjósendur höfnuðu þar tveggja flokka kerfinu sem verið hafði við lýði í áratugi þar sem Íhaldsmenn og Sósíalistar skiptust á að fara með stjórnartaumana.

Ríkisstjórn íhaldsmannsins Mariano Rajoy féll og tveir nýir flokkar fengu góða kosningu, róttæki vinstri flokkurinn Podemos, eða Við getum, og Borgaraflokkurinn, Ciudadanos. Í fyrsta skipti á lýðveldistímanum fékk enginn stjórnmálaflokkur hreinan meirihluta.

Síðan hefur hvorki gengið né rekið við að mynda samsteypustjórn en forsætisráðherrann Rajoy hefur leitt bráðabirgðastjórn á meðan. Blásið var til kosninga að nýju í júní síðastliðnum og þar varð niðurstaðan svipuð, engin flokkur náði meirihluta en Partido Popular, Lýðflokkur Rajoys, styrkti stöðu sína.

Sósíalistar hafa komið í veg fyrir myndun minnihlutastjórnar Rajoy, en Sósíalistar kusu sér nýjan leiðtoga fyrr í mánuðinum, sem opnaði á að endi yrði bundinn á stjórnarkreppunni. Hafa Sósíalistar samþykkt að sitja hjá, verði greidd atkvæði um vantraust gegn stjórn Rajoy.


Tengdar fréttir

10 mánaða stjórnarkreppu afstýrt á Spáni

Tíu mánaða stjórnarkreppu lauk á Spáni í dag þegar Sósíalistar ákváðu að styðja minnihlutastjórn íhaldsmanna, til að afstýra því að blása þyrfti til kosninga í þriðja sinn á tæpu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×