Sport

Spáir því að norskur kvenboxari verði eins stór og Floyd Mayweather

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cecilia Brækhus.
Cecilia Brækhus. Vísir/Getty
Hin norska Cecilia Brækhus er á góðri leið með að verða ein frægasti boxari heimsins og þjálfarinn hennar er sannfærður um að hún verði ein af þeim allra stærstu í boxsögunni.

Frammistaða  Cecilia Brækhus vekur mikla athygli á boxi í Noregi svona svipað eins og frammistaða Gunnars Nelson vekur mikla athygli á UFC á Íslandi.

Cecilia Brækhus fer næst inn í hringinn á móti Chris Namus frá Úrúgvæ um næstu helgi en boxbardagi þeirra fer fram í Halle í Þýskalandi.

Jonathon Banks er nýr þjálfari Cecilia Brækhus en hann var sjálfur liðtækur boxari. Banks hefur einnig þjálfað Wladimir Klitschko og þekkir því vel til.

Brækhus meiddist illa á fæti í síðasta bardaga sínum og hefur því ekki keppt síðan í nóvember 2014. Hún er því að stíga inn í hringinn í fyrsta sinn í fjórtán mánuði.

Jonathon Banks efast ekki um hæfileika hinnar 34 ára gömlu Cecilia Brækhus sem hefur unnið alla 27 bardaga sína á ferlinum. Hann spáir mikilli velgengi hjá Brækhus.

„Hún er ekki nálægt toppnum sínum ennþá. Ég er sannfærður um að menn muni tala um hana í sömu setningu og kappa eins og Floyd Mayweather og alla hina stærstu boxara sögunnar," sagði Jonathon Banks á blaðamannafundi fyrir komandi bardaga en Dagbladet í Noregi segir frá.

Floyd Mayweather vann alla 47 boxbardagana á sínum ferli og hefur lagt hanskana á hilluna ósigraður. Cecilia Brækhus þarf að vinna tuttugu í viðbót til að jafna þann árangur en hún er handhafi fjögurra belta í dag.

„Cecilia er ein af þeim allra bestu og hún er mögulega klárari en þeir allir," sagði Banks.  

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×