Bílar

Spænskumælandi bílkaupendur draga áfram vöxtinn vestra

Finnur Thorlacius skrifar
Mesta aukningin í bílasölu í Bandaríkjunum er til spænskumælandi fólks.
Mesta aukningin í bílasölu í Bandaríkjunum er til spænskumælandi fólks.
Sá þjóðfélagshópur sem bílaframleiðendur sjá mestan vöxt í sölu nýrra bíla í Bandaríkjunum er hjá spænskumælandi fólki. Svo rammt kveður við að spænskumælandi fólk (Hispanic) á stærstan hlut í þeim vexti sem var í bílasölu þar vestra á síðasta ári.

Samkvæmt upplýsingum frá IHS Automotive Polk market data var 96% af söluaukningu bíla Ford og Chevrolet í fyrra skýrð út með aukinni sölu til spænskumælandi fólks þar í landi. Þessi tala var 33% hjá Nissan, 35% hjá Toyota og 100% hjá Honda og þar á bæ hefði líkleg orðið söluminnkun á milli ára ef ekki hefði komið til svo mikillar sölu til spænskumælandi fólks.

Söluaukning 5,9% en 15% hjá spænskumælandi

Sala bíla í Bandaríkjunum jókst um 5,9% í fyrra og seldust 921.636 fleiri bílar en árið 2013. Sala bíla til spænskumælandi fólks jókst hinsvegar um 15% og skýrði það út um 250.000 bíla af þessari aukningu. Þetta átti ekki einungis við í þeim fylkjum þar sem hátt hlutfall er af spænskumælandi fólki, eins og í Kaliforníu, Texas og Flórida, heldur einnig í miðvesturríkjunum og víðar um landið.

Það eru 54 milljónir spænskumælandi fólks í Bandaríkjunum og fer þeim hratt fjölgandi, en árið 1995 voru þeir 27 milljónir. Búist er við því að talan muni aftur tvöfaldast á næstu 35 árum og verði 108 milljónir árið 2050.

Toyota leggur áherslu á spænskumælandi

Toyota hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á þann markhóp sem spænskumælandi fólk er og selur ekkert eitt bílafyrirtæki eins hátt hlutfall bíla sinna til spænskumælandi fólks, eða 16,9% í fyrra. Þetta hlutfall er 12,3% hjá Nissan og 11,9% hjá Honda, 9,2% hjá Chevrolet og 8,5% hjá Ford. Toyota seldi fjórða hvern Corolla bíl í fyrra til spænskumælandi fólks í Bandaríkjunum og fimmta hvern Lexus IS bíl.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×