Innlent

Spáð snjókomu og frosti á sumardaginn fyrsta

Bjarki Ármannsson skrifar
Lítið mun sjást til sólar hér á landi þegar sumarið gengur í garð.
Lítið mun sjást til sólar hér á landi þegar sumarið gengur í garð. Mynd/Veðurstofa Íslands
Sumardagurinn fyrsti rennur upp nú á fimmtudag en miðað við spá á vef Veðurstofu Íslands mun sumarveðrið láta bíða eitthvað lengur eftir sér. Á fimmtudag er spáð snjókomu og frosti um nær allt landið.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð snjóél um morguninn og hita við frostmark fram eftir degi. Á Akureyri er útlit fyrir lítils háttar snjókomu og um fjögurra gráðu frost allan daginn.

Spáin er nánast sú sama á Vestfjörðum og á Austurlandi, lítils háttar snjókoma yfir allan daginn og hiti undir frostmarki. Þá er von á því að hiti fari rétt yfir frostmark á Kirkjubæjarklaustri í hádeginu en þá er jafnframt von á slyddu.

Snjókoman á svo að halda áfram á Akureyri, Vestfjörðum og Austurlandi á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×