Innlent

Spá svartabyl í nótt og fram eftir degi

Birgir Olgeirsson skrifar
Kalt verður í veðri fram á sunnudag.
Kalt verður í veðri fram á sunnudag. Vísir/Stefán
Spáð er stórhríð um landið norðaustanvert í nótt og fram eftir degi. Hægari vindur verður vestantil en kafaldsbylur norðan- og austanlands en úrkomulítið sunnan- og vestanlands. Dregur smám saman úr vindi og ofankomu eftir hádegi á morgun. Kólnar ört og víða talsvert frost á landinu seint á morgun. Kalt verður síðan í veðri fram á sunnudag.

Veðurhorfur á landinu næsta sólarhringinn:

Vaxandi norðanátt í kvöld með snjókomu á N-verðu landinu. Norðan og norðvestan 13-23 m/s í nótt, hvassast A-til. Talsverð eða mikil snjókoma NA-lands, en þurrt syðra. Frost yfirleitt 0 til 5 stig. Dregur úr vindi og ofankomu síðdegis á morgun og kólnar. Norðan 5-13 annað kvöld, en 13-20 A-lands. Léttskýjað á S- og V-landi, annars él.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Norðlæg átt, víða 5-10 m/s en 10-18 austast. Dálítil él N-lands, annars bjartviðri. Frost yfirleitt á bilinu 5 til 15 stig.

Á föstudag:

Hæg breytileg átt, en norðvestan 5-13 m/s A-lands. Víða léttskýjað og talsvert frost, en él við N- og NA-ströndina.

Á laugardag:

Suðlæg átt og stöku él. Fer að snjóa SV- og V-lands síðdegis, slydda eða rigning þar um kvöldið og hlánar víða. Áfram talsvert frost í öðrum landshlutum.

Á sunnudag:

Suðaustanátt og súld eða dálítil rigning S- og V-lands, en léttskýjað NA-til á landinu. Hlýnar talsvert.

Á mánudag:

Útlit fyrir suðvestanátt og él.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×